Fyrirsjáanleg pattstaða í Svíþjóð

Stuðningsmenn Svíþjóðardemókrata bregðast við útgönguspám í gærkvöldi, þar sem þeim ...
Stuðningsmenn Svíþjóðardemókrata bregðast við útgönguspám í gærkvöldi, þar sem þeim var spáð góðu gengi. Grétar Már telur útilokað að flokkurinn komi nálægt stjórnarmyndun. AFP

Grétar Þór Eyþórsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Akureyri, segir að staðan sem núna er uppi í sænskum stjórnmálum hafi blasað við í þónokkurn tíma. Hann telur útilokað að Svíþjóðardemókratar komi að stjórnarmyndun.

„Ég held að það viti enginn neitt en það er ekkert annað að sjá en að það sé útilokað að Svíþjóðardemókratarnir komi með einum eða neinum hætti að ríkisstjórnarmyndun í neinu formi,“ segir Grétar Þór um næstu skref í Svíþjóð að loknum kosningunum. 

Vatnaskil í sænskum stjórnmálum

Hann bjó í Svíþjóð í tíu ár og segir að staðan eigi ekki að koma neinum á óvart sem hafa fylgst vel með stjórnmálum í landinu. „Mér hefur fundist blasa við í dálítið langan tíma að það sé þessi pattstaða og nú sé komið sennilega að þeim vatnaskilum í sænskum stjórnmálum að þeir verða að fara að horfa yfir miðjuna milli vinstri og hægri og finna einhverjar lausnir á því.“

Hann segir stöðu mála vera algjörlega nýja en nefnir þó samstarf Miðflokksins, sem þá hét Bændaflokkurinn, um miðjan sjötta áratuginn við Krata. Hlutirnir hafi verið skorðaðir í annað hvort vinstri eða hægri og minnihlutastjórnir hafi verið í Svíþjóð síðustu kjörtímabil.

Stefan Löfven forsætisráðherra talar við stuðningsmenn sína að loknum kosningunum.
Stefan Löfven forsætisráðherra talar við stuðningsmenn sína að loknum kosningunum. AFP

Samstarf við Svíþjóðardemókrata banabiti

Spurður segir hann að minnihlutastjórn sé einnig möguleg núna eftir kosningarnar og hún yrði þá varin vantrausti öðrum hvorum megin frá. Þá hafa menn helst horft til þess að Stefan Löfven forsætisráðherra myndi tala við Miðflokkinn og Frjálslynda flokkinn. „Svoleiðis stjórnarsamstarf gengi illa upp gagnvart Vinstri flokknum, það er ekki mikill vilji til samstarfs þar. Það eru ýmsir möguleikar í þessu og þetta getur tekið tíma sinn en ég get ekki ímyndað mér að það taki neinn þá áhættu að ætla að blanda sér saman við Svíþjóðardemókratana. Það getur orðið banabiti til aðeins lengri tíma litið,“ greinir Grétar Þór frá.

Stjórnarmyndunarviðræður gætu hafist strax

Hvað framtíð Löfven varðar segir hann forsætisráðherrann vera með vel stærsta flokkinn og hann geti setið áfram og reynt að mynda stjórn. Ef ekkert verður í spilunum fyrir hann mun hann þó hrökklast frá.

Grétar Þór Eyþórsson, prófessor í stjórnmálafræði.
Grétar Þór Eyþórsson, prófessor í stjórnmálafræði. Ljósmynd/Auðunn Níelsson

Hann segir að mælingarnar á Svíþjóðardemókrötum hafi verið í lægri mörkunum miðað við spár og að þeir gætu lækkað aðeins meira þegar utankjörfundaratkvæði hafa verið talin frá útlöndum á miðvikudaginn. Hann telur þó ólíklegt að utankjörfundaratkvæði eigi eftir að skipta máli varðandi stjórnarmyndun. „Hvort rauðir eru 0,1% stærri en hægri eða öfugt, það mun ekki breyta neinu. Sósíaldemókratar eru langstærstir og þetta mun ekki breyta því,“ segir hann og telur að hægt sé að byrja að vinna í stjórnarmyndun strax í dag.

Gæti endað úti á götu

Spurður nánar út í möguleikann á að Svíþjóðardemókratar komi að myndun ríkisstjórnar minnist Grétar Þór þess er þáverandi formaður Moderaterna, Anna Kinberg Batra, opnaði á það í ræðu að það gæti komið til samstarfs við Svíþjóðardemókrata. „Það olli þvílíku uppnámi í flokknum og hún endaði úr formannsstóli. Meira að segja stóri hægri flokkurinn er ekki sérstaklega ginnkeyptur fyrir samstarfi miðað við þetta. Ég veit ekki hvort núverandi formaður ætlar sér að taka skref í þessa átt og enda úti á götu eins og forveri hans.“

Ebba Busch Thor, formaður Kristilegra demókrata.
Ebba Busch Thor, formaður Kristilegra demókrata. AFP

Stjórnin búin að skrimta

Grétar Þór treystir sér ekki til að spá fyrir um framhaldið enda séu fá fordæmi fyrir þeirri stöðu sem núna er uppi. Menn hafi myndað minnihlutastjórnir öðrum hvorum megin.

Hann rifjar upp að eftir að Löfven myndaði fráfarandi stjórn sína haustið 2014 og þegar kom að því að samþykkja fjárlögin neitaði hægri blokkin að styðja þau. Í framhaldinu hótaði Löfven því að rjúfa þing milli jóla og nýárs og boða til kosninga í mars og þá gaf hægri blokkin sig.

„Þessi stjórn er búin að skrimta með hlutleysi og fleiri aðferðum af hálfu hægri vængsins alveg síðan. Hvort menn fara í slíkar æfingar er ég ekki viss um. Þeir eru kannski með sterkara tilkall til þess að vera við stýrið og formenn hægra megin töluðu mikið um það í gærkvöldi, en það er spurningin hvaða lendingu menn ná í því. Maður sér það ekki fyrir á þessu augnabliki,“ útskýrir hann.

mbl.is

Bloggað um fréttina

- Studio íbúð til leigu.
Til leigu í Biskupstungum fyrir 1-2, bað/sturta og eldhús, gasgrill. leigist ...
Útsala !!! Bækur.....
Til sölu bækur...Vestur íslenskar æviskrár..1-5.bindi..Hraunkotsætt... Lygn str...
INTENSIVE ICELANDIC,ENGLISH, NORWEGIAN & DANISH f. foreigners - ÍSLENSKA f. útl - - ENSKA f. fullorðna - DANSKA- NORSKA
ÍSLENSKA, ENSKA, NORSKA, DANSKA: I, II, III, IV, V, VI: 2019:SPRINGTERM / VO...
Bækur um ættfræði, byggðasögu og ýmsan fróðleik til sölu
Til sölu nokkur grundavallarrit ættfræðinnar ásamt ritum um atvinnu- og byggðasö...