Lula sagður hættur við að bjóða sig fram

Forsetaframbjóðandinn Fernando Haddad. Talið er að Luiz Inacio Lula da …
Forsetaframbjóðandinn Fernando Haddad. Talið er að Luiz Inacio Lula da Silva, fyrrverandi forseti Brasilíu, muni lýsa yfir stuðningi við framboð Haddads í dag. AFP

Luiz Inacio Lula da Silva, fyrrverandi forseti Brasilíu, ætlar að gefa forsetaframboð sitt upp á bátinn. Lula, sem er nú í fangelsi eftir að hafa hlotið 12 ára dóm fyrir spillingu, hafði vonast til að Hæstiréttur Brasilíu tæki áfrýjunarbeiðni  sína til umfjöllunar í tæka tíð fyrir forsetakosningarnar 7. október. Áður hafði áfrýjunardómstóll bannað honum að bjóða sig fram á ný og gaf honum tíu daga til að hætta við.

Samkvæmt heimildum Reuters-fréttastofunnar mun Lula lýsa yfir stuðningi við Fernando Haddad í dag. Verður bréf Lula lesið upp fyrir stuðningsmenn hans sem hafa undanfarna fimm mánuði hafst við framan við lögreglustöðina í borginni Curitiba, þar sem Lula hefur setið í fangelsi frá því í apríl.

Haddad, sem einnig er í framboði fyrir Verkamannaflokkinn, verður þar með væntanlega opinberlega forsetaframbjóðandi flokksins.

Segirst Reuters Lula með þessu ætla að forðast hættuna á að framboð flokksins verði gert ógilt.

Fylgi forsetaframbjóðandans og hægri öfgamannsins Jair Bolsonaro, hefur farið vaxandi eftir að hann særðist hættulega í hnífaárás í síðustu viku og var hann með meirihlutafylgi, 24%, í síðustu skoðanakönnun og talinn líklegur keppinautur Lula um forsetaembættið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert