Minntist sérstaklega farþeganna í flugi 93

Donald Trump Bandaríkjaforseti minntist sérstaklega flugfarþeganna í flugi 93 með ...
Donald Trump Bandaríkjaforseti minntist sérstaklega flugfarþeganna í flugi 93 með United Airlines 11. september 2001 sem reyndu að komast inn í flugstjórnarklefa vélarinnar til að stöðva árásarmennina og ná stjórn á vélinni. AFP

17 ár eru í dag liðin frá mannskæðustu hryðjuverkum í sögu Bandaríkjanna þegar fjórum farþegaþotum var rænt á flugi yfir austurströnd landsins. Tveimur þotum var flogið á World Trade Center tvíburaturnana í New York, einni þotu var flogið á Pentagon-bygginguna í Virginíu og ein þota hrapaði í Somerset-sýslu í Pennsylvaníu eftir að farþegar reyndu að koma í veg fyrir ætlunarverk hryðjuverkamannanna. Alls fórust 2.996 manns í árásunum.

Framtíð Bandaríkjanna mótuð af hetjum 

Donald Trump Bandaríkjaforseti og eiginkona hans Melania voru viðstödd minningarathöfn í Shanksville í Pennsylvaníu í dag þar sem forsetinn tók til máls og minntist hann sérstaklega flugfarþeganna í flugi 93 með United Airlines sem reyndu að komast inn í flugstjórnarklefa vélarinnar til að stöðva árásarmennina og ná stjórn á vélinni. Talið er að árásarmennirnir hafi ætlað að brotlenda vélinni við Hvíta húsið eða Bandaríkjaþing.

„Framtíð Bandaríkjanna verður ekki mótuð af óvinum okkar. Framtíð Bandaríkjanna verður mótuð af hetjunum okkar. Svo lengi sem þessi minnisvarði stendur munu hugrakkir föðurlandsvinir verja málstað Bandaríkjanna þegar þörfin krefur og þeir munu berjast, “ sagði Trump meðal annars. Minnisvarðinn sem forsetinn minntist á var afhjúpaður nýlega og og nefnist hann „Turn raddanna“ (e. Tower of Voices). Turninn er 28 metra hár og í honum eru 40 bjöllur sem mynda fallegan hljóm.

Trump er þriðji Bandaríkjaforsetinn sem heimsækir vettvanginn þar sem vélin brotlenti í Pennsylvaníu, um 110 kílómetra suðaustur af Pittsburgh.

Fjöldi fólks var viðstaddur minningarathöfn í Shanksville í Pennsylvaníu í ...
Fjöldi fólks var viðstaddur minningarathöfn í Shanksville í Pennsylvaníu í dag þar sem fórnarlamba hryðjuverkaárásanna 11. september 2001 var minnst. AFP

Heiðruðu fórnarlömb árásanna með 17 mínútna þögn

Minningarathöfn fór einnig fram á minningartorginu við World Trade Center í New York. Ríkisstjóri New York, Andrew Cuomo, og sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum, Nikki Haley, voru viðstödd athöfnina. Borgarstjóri New York borgar, Bill de Basio, var einnig viðstaddur ásamt forverum hans í starfi, Michael Bloomberg og Rudy Giuliani.

Ættingjar fórnarlambanna lásu upp nöfn þeirra sem létust í árásunum og milli klukkan 8.46 og 9.03 þögðu allir viðstaddir til að votta hinum látnu virðingu, en á þessum tíma fyrir 17 árum var þotunum tveimur flogið á turnana.

Minnisvarði gerður af brasilíska götulistamanninum Eduardo Kobra. 17 ár eru ...
Minnisvarði gerður af brasilíska götulistamanninum Eduardo Kobra. 17 ár eru í dag frá því hryðjuverkaárásir á World Trade Center og Pentagon voru framdar. AFP
mbl.is