Skopmynd af Williams gagnrýnd fyrir fordóma

Serena Williams fleygir tennisspaðanum sínum í jörðina.
Serena Williams fleygir tennisspaðanum sínum í jörðina. AFP

Skopmynd af tennisleikaranum Serenu Williams hefur vakið mikla gagnrýni á samfélagsmiðlum fyrir að þykja bæði lýsa yfir kynþáttahatri og kvenfyrirlitningu. Teikningin sýnir Williams hoppa ofan á brotnum tennisspaða, en við hliðina á spaðanum liggur snuð.

Ástralski skopmyndateiknarinn Mark Knight hefur varið teikninguna og segist eingöngu hafa ætlað að sýna „léleg viðbrögð“ Williams við ákvörðun dómarans, þetta sé ekki kynþáttahatur.

Þá hafa aðrir gagnrýnt að Knight hafi „hvítþvegið“ japanska tennisleikarann Naomi Osaka, að því er BBC greinir frá.

Williams vakti mikið umtal er hún sakaði dómarann um kvenfyrirlitningu og fyrir að vera „þjófur“ í tapleik sínum gegn Osaka.

Skopmyndin var birt í dagblaðinu Herald Sun, sem er eitt mest lesna dagblaði Ástralíu og sést dómarinn þar spyrja Osaka „Geturðu ekki bara leyft henni að vinna?“

„Þarna er með réttu gert grín að lélegri hegðun goðsagnar í tennisheiminum... Mark hefur stuðning okkar allra,“ sagði ritstjórinn  Damon Johnston á Twitter.

Gagnrýnendur, en í þeirra hópi er rithöfundurinn JK Rowling, hafa hins vegar bent á að teikningin minni á eldri, rasískar skopteikningar af svörtu fólki. Aðrir hafa bent á að teiknarinn hafi gert hina japönsku Osaka að hvítri konu með ljóst hár.

Samtök svartra fjölmiðlamanna í Bandaríkjunum hafa fordæmt skopmyndina og segja hana „andstyggilega á svo margan hátt“.

„Þetta er ekki bara skopmynd sem lýsir kynþáttahatri og kvenfyrirlitningu í garð beggja kvenna, heldur er teikningin af Williams líka óþarflega Sambó-leg,“ sagði í yfirlýsingu samtakanna sem vísuðu þar í barnabókina Litli svarti Sambó.

Knight kveðst hins vegar ekkert þekkja til mynda á borð við Sambó, eða þekkja efni frá þeim tíma. „Heimurinn er genginn af göflunum,“ sagði hann. „Skopmyndin var bara af Serenu taka æðiskast. Það var allt og sumt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert