Vilja deila hægribandalaginu og drottna

AFP

Þreifingar eru hafnar milli sænskra stjórnmálaflokka um myndun nýrrar ríkisstjórnar eftir kosningarnar á sunnudag. Anders Ygeman, þingflokksformaður Sósíaldemókrata, hefur að sögn Expressen haft samband við leiðtoga allra flokka nema þjóðernisflokksins Svíþjóðardemókrata, en enginn stjórnarandstöðuleiðtogi hefur þegið kaffiboðið.

Sænska ríkisútvarpið, SVT, segir Miðflokkinn og Frjálslynda flokkinn, sem báðir tilheyra hægribandalaginu, hafa hafnað tilboði Stefan Löfven, forsætisráðherra og formanns Sósíaldemókrata, um samstarf.

Annie Lööf, formaður Miðflokksins, vill hvorki játa né neita því að slíkt tilboð liggi fyrir. „Sósíaldemókratar hafa um áratuga skeið átt í samtali við borgaralegu flokkana um stuðning við að halda völdum. Þeir vilja deila og drottna með því að kljúfa hægribandalagið,“ segir Lööf. Hún segir markmið Miðflokksins skýrt: að hægribandalagið myndi ríkisstjórn.

Þó er talið ólíklegt að Annie Lööf myndi sætta sig við að sú stjórn sæti með stuðningi Svíþjóðardemókrata en Lööf hefur í kosningabaráttunni verið einn harðasti andstæðingur flokksins og innflytjendastefnu hans.

Allir með — eða enginn

Ebba Busch Thor, formaður Kristilegra demókrata, hefur sagt að samtal við Sósíaldemókrata sé ekki óhugsandi, en þá þurfi Sósíaldemókratar að bjóða öllu hægribandalaginu að borðinu.

Hnífjafnt er milli vinstriflokka og hægribandalagsins. Enn á eftir að telja 200.000 utankjörfundaratkvæði og ekki búist við að talningu þeirra ljúki fyrr en á föstudag. Eins og staðan er nú hafa vinstriflokkarnir samanlagt 144 þingsæti en hægribandalagið 143. Þjóðernisflokkurinn Svíþjóðardemókratar, sem enginn vill vinna með, er með 63 sæti.

Ekki þarf þó nema nokkur atkvæði til að Miðflokkurinn bæti við sig manni á kostnað Svíþjóðardemókrata, auk þess sem Frjálslyndi flokkurinn er nálægt því að ná manni af Sósíaldemókrötum. Því er ljóst að hægribandalagið getur enn orðið stærra en vinstriflokkarnir.

Meirihluti vill samstarf þvert á blokkir

Engin hefð er fyrir samstarfi flokka þvert á blokkir, en í könnun sem sjónvarpsstöðin TV4 birti í dag kemur fram að 64% aðspurðra telji tímabært að stjórnmálaflokkarnir hefji samstarf þvert á fylkingar, 19% eru því andvíg en 17% hlutlaus.

Stefan Löfven, forsætisráðherra og formaður Sósíaldemókrata, hefur talað fyrir mikilvægi þess að flokkar hægri- og vinstribandalagsins vinni saman þvert á blokkirnar tvær. Telja stjórnmálaskýrendur að með því beini hann orðum sínum fyrst og fremst að Frjálslynda flokknum og Miðflokknum, þeim tveim flokkum hægribandalagsins sem standa vinstriflokkunum næst. Löfven leitaði til þeirra um samstarf eftir kosningarnar 2014 en hafði ekki erindi sem erfiði og úr varð minnihlutastjórn Sósíaldemókrata og Græningja, varin af Vinstriflokknum.

Annie Lööf, formaður Miðflokksins.
Annie Lööf, formaður Miðflokksins. AFP

Hægribandalagið samheldnara

Ulf Kristersson, formaður Moderaterna og forsætisráðherraefni hægribandalagsins, hefur þó sagt að hægribandalagið sé stærsta bandalagið á þingi þar sem ekki megi líta á vinstriflokkana þrjá sem bandalag. Ólíkt vinstriflokkunum þremur sé hægribandalagið samtiga. Flokkar þess hafi haft samráð um stefnu og haldið sameiginlega kosningafundi.

Per Vesterberg, fyrrverandi þingmaður Moderaterna og forseti þingsins, tekur í sama streng. Í samtali við Sænska dagblaðið segir hann að varla megi telja Vinstriflokkinn sem fullgildan samstarfsflokk rauðgrænu blokkarinnar. „Stefan Löfven [formaður Sósíaldemókrata] vill ekki mynda ríkisstjórn með Vinstriflokknum. Þótt fjárlagasamstarfið gæti gengið greiðlega, vill Löfven ekki samstarf við flokkinn þegar kemur að öryggismálum, Evrópusambandsaðild eða innflytjendamálum,“ segir Vesterberg.

Vinstriflokkurinn hefur aldrei átt aðild að ríkisstjórn en jafnan stutt stjórnir Sósíaldemókrata, og gerir það nú.

Gott landslag fyrir minnihlutastjórn 

Magnus Isberg, prófessor í stjórnmálafræði við Stokkhólmsháskóla, segir þingsköp að mörgu leyti auðvelda störf minnihlutastjórnar. Forsætisráðherra þarf ekki að njóta stuðnings meirihluta þingsins; hann getur setið í krafti þess að ekki sé meirihluti á móti. Þá geti flokkar utan ríkisstjórnar ekki fellt fjárlög nema að koma sér saman um sín eigin.

Hefðbundin störf ríkisstjórnar gætu þó reynst erfiðari enda þurfi þá stuðning meirihluta þingsins. 

Stefan Löfven forsætisráðherra gaf sér tíma frá stjórnarmyndunarviðræðum til að …
Stefan Löfven forsætisráðherra gaf sér tíma frá stjórnarmyndunarviðræðum til að taka þátt í minningarathöfn um Önnu Lindh, fyrrverandi utanríkisráðherra, sem var stungin til bana á þessum degi fyrir fimmtán árum. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert