Fjöldi fólks flýr undan Flórens

Umferð er farin að þyngjast í Norður- og Suður-Karólínu vegna …
Umferð er farin að þyngjast í Norður- og Suður-Karólínu vegna fellibyljarins Flórens. Búist er við að Flórens muni koma að austurströnd Bnadaríkjanna á föstudagsmorgun. AFP

Íbúar á austurströnd Bandaríkjanna eru í óða önn að undirbúa sig fyrir fellibylinn Flórens sem mun líklega koma að ströndinni á föstudagsmorgun. Neyðarástandi hefur verið lýst yfir í Norður- og Suður-Karólínu, Virginíu, Maryland og höfuðborginni Washington.

Yfir 1,7 milljónir manna hafa yfirgefið heimili sín og hafa íbúarnir verið hvattir til að færa sig inn til landsins. Umferð er farin að þyngjast og hafa yfirvöld brugðið á það ráð að snúa umferð á nokkrum af stærstu hraðbrautunum svo einungis er hægt að aka í eina átt, á átta til tíu akreinum.

Íbúar í Norður-Karólínu undirbúa sig undir fellibylinn Flórens.
Íbúar í Norður-Karólínu undirbúa sig undir fellibylinn Flórens. AFP

Sá öflugasti í þrjá áratugi

Jeff Byard, talsmaður almannavarna Bandaríkjanna (FEMA) hvetur íbúa til að yfirgefa svæðið áður en Flórens skellur á. „Þetta verður ekkert smávægilegt,“ hefur BBC eftir Byard sem lýsir yfirvofandi fellibylnum þannig að strönd Karólínuríkjanna eigi von á höggi frá Mike Tyson.

Veðurfræðingur hjá Veðurstofunni í Wilmington í Norður-Karólínu segir að fellibylurinn verði sá öflugasti sem komið hef­ur upp að strönd­um Karólínu­ríkj­anna tveggja í tæpa þrjá ára­tugi, og á hann enn eft­ir að auka styrk sinn.

„Og þá er mikið sagt, með tilliti til þess sem við höfum séð frá fellibyljunum Díönu, Húgó, Fran, Bonnie, Floyd og Matthew,“ segir veðurfræðingurinn, sem eru allt fellibyljir sem hafa áður farið yfir svæðið.

Vindhraði kominn yfir 60 metra á sekúndu

Flórens er þessa stundina flokkaður sem fjórða stigs fellibylur á kvarða þar sem fimm er alvarlegastur. Vindhraði nemur nú 60 metrum á sekúndu og á enn eftir að aukast. Bú­ist er við að Flórens muni koma á land í ná­grenni Wilm­ingt­on í Norður-Karólínu­ríki á föstu­dag.

Fellibylnum mun fylgja mikið vatnsveður og spá veðurfræðingar að líklega verði úrkoman mæld í fetum frekar en tommum, líkt og venjan er. Búist er við því að sólarhringsúrkoma fari yfir 500 mm.

Neyðarástandi hefur verið lýst yfir í höfuðborginni Washington vegna fellibylsins …
Neyðarástandi hefur verið lýst yfir í höfuðborginni Washington vegna fellibylsins Flórens sem stefnir á austurströnd Bandaríkjanna. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert