Þjófarnir notuðu gullnestisboxið undir mat

Þjófarnir fundu ekki kaupendur að boxinu og notuðu það því …
Þjófarnir fundu ekki kaupendur að boxinu og notuðu það því undir mat.

Þjófar sem rændu demantsskreyttu nestisboxi úr gulli sem sem var í eigu fyrrverandi konungsfjölskyldu á Indlandi nýttu það í sínum upprunalega tilgangi og geymdu í því mat, þar sem þeir fundu ekki að því kaupendur.

Nestisboxinu var stolið í síðustu viku ásamt rúbínskreyttum tebolla úr skíragulli, undirskál og teskeið að andvirði 760 milljóna króna. Mun­irn­ir, sem höfðu verið í eigu Mirs Os­m­ans Alis Khans, síðasta kon­ungs Hydera­bad og eitt sinn rík­asta manns í heimi, eru nú komnir í leitirnar. Tveir menn voru handteknir í borginni Hyderabad vegna málsins.

Lögregla taldi að þjófarnir hefðu flúið með munina til Mumbai til að koma hlutunum í verð og það reyndist raunin. Þar sem þeir fundu ekki kaupendur héldu þeir hins vegar aftur til Hyderabad þar sem lögregla hafði uppi á þeim eftir mikla leit.

Þjófarnir tóku munina úr sýningarhvelfingu í Nizam-höll, en sverði úr eigu sömu konungsfjölskyldu var stolið af öðru safni í borginni fyrir 10 árum. Þjófarnir áttu við eftirlitsmyndavélar svo þjófnaðurinn næðist ekki á mynd en þeir skrúfuðu svo glerdyr af sýningarskápnum til að forðast skemmdir á munum.

Mununum verður nú komið aftur fyrir á Nizam-safni sem var opnað al­menn­ingi árið 2000.  Stærst­ur hluti sýn­ing­ar­inn­ar er dýr­ar gjaf­ir sem Mir Osm­an Ali Khan voru gefn­ar árið 1937. Khan réð þá yfir stærsta kon­ung­dæmi Ind­lands. Hann lést árið 1967, en sög­ur voru sagðar af auði hans. Átti Khan m.a. Jacob-dem­ant­inn sem var á stærð við egg, sem og marga aðra ein­staka skart­gripi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert