„Þessi stormur er algjör ófreskja“

Íbúar leita skjóls í skóla í Norður-Karólínuríki fyrir komu fellibylsins ...
Íbúar leita skjóls í skóla í Norður-Karólínuríki fyrir komu fellibylsins Florence. AFP

Fellibylurinn Flórens, sem er öflugasti fellibylur sem komið hefur upp að ströndum Karólínuríkjanna tveggja í tæpa þrjá áratugi, á enn eftir að auka styrk sinn.

Vara yfirvöld við því að hætta sé á „lífshættulegum flóðum“ næstu tvo sólarhringa,  að því er BBC greinir frá en Flórens stefnir á austurströnd Bandaríkjanna. Vindhraði fellibylsins nemur nú 225 km/klst og er Flórens nú fjórða stigs fellibylur.

Búist er við að Flórens muni koma á land í nágrenni Wilmington í Norður-Karólínuríki á föstudag.

Neyðarástandi hefur þegar verið lýst yfir í Virginíu, Maryland, Washington og Norður- og Suður-Karólínuríki.

„Þessi stormur er algjör ófreskja,“ sagði Roy Cooper, ríkisstjóri Norður-Karólínuríkis, við fréttamenn. „Hann er stór og illvígur. Þetta er verulega varasamur, lífshættulegur og sögulegur fellibylur.“Búist er við að Flórens eigi enn eftir að auka styrk sinn í dag, en muni síðan veikjast eitthvað aftur aðfaranótt fimmtudags.

Bandaríska veðurstofan spáir miklum öldugangi við ströndina, hættulegum stórum undiröldum og útsogi. Búist er við að öflugur vindur nái allt að 95 km út frá miðju fellibylsins og að vindhraði geti verið allt að 282 km/klst. Þá geti úrkoma orðið allt að 64 cm á sumum svæðum, en talið er að Flórens muni hægja á ferð sinni er hún kemur inn á land.  Segir veðurfræðingur WCBD-TV sjónvarpsstöðvarinnar í Suður-Karólínu að áhrifa Flórens verði vart í allt að 160 km fjarlægð frá fellibylnum.

Ralph Northam, ríkisstjóri Virginíu, varar við „hamfarakenndum flóðum inn til landsins, mikils vindstyrks og rafmagnsleysis víða“.

Búist er við að öflugur vindur nái allt að 95 ...
Búist er við að öflugur vindur nái allt að 95 km út frá miðju fellibylsins og að vindhraði geti verið allt að 282 km/klst. Skjáskot/Windy.com

Íbúum á vissum svæðum í Suður- og Norður-Karólínu og Virginíu hefur verið gert að yfirgefa heimili sín og tekur brottflutningurinn til rúmlega milljón manns.  

Íbúar á svæðinu hafa þá þyrpst í í verslanir til að byrgja sig upp af nauðsynjum. John Johnson, eigandi byggingavöruverslunar í  Charleston í Suður-Karólínuríki sagði í samtali við AFP-fréttastofuna að það hefði verið stöðug eftirspurn eftir rafhlöðum, vasaljósum, plastdúkum og sandpokum. Þá voru sumar bensínstöðvar orðnar eldsneytislausar.

Á heimasíðu win­dy.com má fylgj­ast með ferðum felli­bylj­ar­ins Flórens.

mbl.is