Trump gagnrýndur fyrir ummælin um Púertó Ríkó

Ummæli Donald Trump Bandaríkjaforseta um fellibylinn Maríu hafa verið gagnrýnd.
Ummæli Donald Trump Bandaríkjaforseta um fellibylinn Maríu hafa verið gagnrýnd. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur hlotið töluverða gagnrýni fyrir að lofa viðbrögð bandarískra yfirvalda er fellibylurinn María fór yfir Púertó Ríkó í fyrra.

„Ef hann telur dauða 3.000 manns vera árangur, þá Guð hjálpi okkur öllum,“ sagði borgarstjóri höfuðborgar Púertó Ríkó á Twitter.

Trump lét orð sín um Púertó Ríkó falla er hann var spurður á fundi með fréttamönnum í Hvíta húsinu, vegna fellibylsins Flórens sem nú stefnir á Bandaríkin,  hvaða lærdóm bandarísk yfirvöld gætu dregið af Maríu.

María, sagði Trump „var langsamlega það erfiðasta sem við höfum sinnt, af því að þetta var eyja. Ég tel þó að viðbragðið hafi verið eitt það besta til þessa með tilliti til þess um hvað þetta snýst.“

Það var fyrst nú í ágúst að rafmagn komst að fullu á alls staðar á Púertó Ríkó, 11 mánuðum eftir að María fór þar yfir. Í nýlegri skýrslu kemur fram að 8% íbúa hafi yfirgefið eyjuna og að margir hafi látist af völdum lélegrar heilbrigðisþjónustu og skorts á annarri aðstoð.

 Ricardo Rossello, ríkisstjóri Púertó Ríkó, sendi í gær frá sér yfirlýsingu þar sem hann lýsti Maríu sem „verstu hamförum í samtímasögu okkar. Innviðir okkar eyðilögðust, þúsundir létu lífið og margir eiga enn erfitt“.

Um 3,3 milljónir manna búa á Púertó Ríkó.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert