Bretar hæða viðtalið við tilræðismenn Skripals

Skjáskot úr viðtalið RT sjónvarpsstöðvarinnar við þá Alexander Petrov og …
Skjáskot úr viðtalið RT sjónvarpsstöðvarinnar við þá Alexander Petrov og Ruslan Boshirov, sem sögðust hafa verið í fríi í Bretlandi. Bretar taka þá skýringu ekki trúanlega. AFP

Viðtal rússnesku ríkissjónvarpsstöðvarinnar RT við við mennina tvo sem bresk yfirvöld telja seka um morðtilræði á rússneska gagnnjósnaranum Sergei Skripal og Yuliu dóttur hans, hefur verið haft að háði og spotti í Bretlandi, m.a. af utanríkisráðherra landsins.

Í viðtalinu fullyrða mennirnir, þeir Alexander Petrov og Ruslan Boshirov, að þeir hafi komið til Bretlands sem venjulegir ferðamenn og hafi gert sér ferð til Salisbury í þeim tilgangi að skoða dómkirkjuna.

„Síðast þegar rússneski herinn sagðist vera í fríi var þegar hann réðist inn í Úkraínu 2014,“ sagði utanríkisráðherrann Jeremy Hunt á Twitter.

Skopmyndateiknari Daily Telegraph birti mynd af þremur njósnurum sem standa á brú í Moskvu og undir myndinni stendur: „Þið heimsóttuð Salisbury-dómkirkjuna og komuð hvorki með lyklakippu né bókamerki til baka?“

Þá sýndi ein Twitter færsla mynd af hurðarhúnum með yfirskriftinni: „Gjafaverslun dómkirkjunnar í Salisbury kunngjörir mikið úrval minjagripa“ og vísaði þar með til þess að taugaeitrinu novichok hafði verið úðað á hurðarhún útidyrahurðarinnar á heimili Skripals.

Skripal-feðginin fundust í kjölfarið meðvitundarlaus á bekk í Salisbury. Ilmvatnsflaskan sem eitrinu hafði verið komið fyrir í rataði hins vegar síðar í hendur manns sem gaf kærustu sinni flöskuna og lést hún eftir að hafa komist í snertingu við eitrið.

Breska lögreglan segir Petrov og Boshirov hafa komið flugleiðina frá Moskvu til London og að þeir hafi farið í tvær stuttar dagsferðir til Salisbury á laugardeginum og aftur á sunnudeginum, en að því loknu hafi þeir flogið aftur til Rússlands frá Heathrow-flugvelli.

„Þetta hefur verið sagt áður, en hvílík dirfska að treysta á lestarþjónustu á sunnudegi til að komast til Salisbury og aftur til Heathrow,“ sagði einn Twitter notandi og vísaði þar til þess hve óáreiðanleg  tímataflan á sunnudögum getur verið.

Þá setti Richard Osman, sem er með spurningaþátt í sjónvarpi upp skoðanakönnun þar sem spurt var: „Geturðu hjálpað tveimur vinum minna? Þeir eru að koma til Bretlands og verða hér bara í tvo daga ...hvaða tvo staði ættu þeir að heimsækja?“

Við þessu voru fjórir valmöguleikar: London og Edinborg, Oxford og Cambridge, Manchester og Liverpool og svo Salisbury og Salisbury.

Talsmaður Theresu May, forsætisráðherra Bretlands, sagði í gær viðtalið vera móðgun við gáfnafar almennings.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert