Bretar hæða viðtalið við tilræðismenn Skripals

Skjáskot úr viðtalið RT sjónvarpsstöðvarinnar við þá Alexander Petrov og ...
Skjáskot úr viðtalið RT sjónvarpsstöðvarinnar við þá Alexander Petrov og Ruslan Boshirov, sem sögðust hafa verið í fríi í Bretlandi. Bretar taka þá skýringu ekki trúanlega. AFP

Viðtal rússnesku ríkissjónvarpsstöðvarinnar RT við við mennina tvo sem bresk yfirvöld telja seka um morðtilræði á rússneska gagnnjósnaranum Sergei Skripal og Yuliu dóttur hans, hefur verið haft að háði og spotti í Bretlandi, m.a. af utanríkisráðherra landsins.

Í viðtalinu fullyrða mennirnir, þeir Alexander Petrov og Ruslan Boshirov, að þeir hafi komið til Bretlands sem venjulegir ferðamenn og hafi gert sér ferð til Salisbury í þeim tilgangi að skoða dómkirkjuna.

„Síðast þegar rússneski herinn sagðist vera í fríi var þegar hann réðist inn í Úkraínu 2014,“ sagði utanríkisráðherrann Jeremy Hunt á Twitter.

Skopmyndateiknari Daily Telegraph birti mynd af þremur njósnurum sem standa á brú í Moskvu og undir myndinni stendur: „Þið heimsóttuð Salisbury-dómkirkjuna og komuð hvorki með lyklakippu né bókamerki til baka?“

Þá sýndi ein Twitter færsla mynd af hurðarhúnum með yfirskriftinni: „Gjafaverslun dómkirkjunnar í Salisbury kunngjörir mikið úrval minjagripa“ og vísaði þar með til þess að taugaeitrinu novichok hafði verið úðað á hurðarhún útidyrahurðarinnar á heimili Skripals.

Skripal-feðginin fundust í kjölfarið meðvitundarlaus á bekk í Salisbury. Ilmvatnsflaskan sem eitrinu hafði verið komið fyrir í rataði hins vegar síðar í hendur manns sem gaf kærustu sinni flöskuna og lést hún eftir að hafa komist í snertingu við eitrið.

Breska lögreglan segir Petrov og Boshirov hafa komið flugleiðina frá Moskvu til London og að þeir hafi farið í tvær stuttar dagsferðir til Salisbury á laugardeginum og aftur á sunnudeginum, en að því loknu hafi þeir flogið aftur til Rússlands frá Heathrow-flugvelli.

„Þetta hefur verið sagt áður, en hvílík dirfska að treysta á lestarþjónustu á sunnudegi til að komast til Salisbury og aftur til Heathrow,“ sagði einn Twitter notandi og vísaði þar til þess hve óáreiðanleg  tímataflan á sunnudögum getur verið.

Þá setti Richard Osman, sem er með spurningaþátt í sjónvarpi upp skoðanakönnun þar sem spurt var: „Geturðu hjálpað tveimur vinum minna? Þeir eru að koma til Bretlands og verða hér bara í tvo daga ...hvaða tvo staði ættu þeir að heimsækja?“

Við þessu voru fjórir valmöguleikar: London og Edinborg, Oxford og Cambridge, Manchester og Liverpool og svo Salisbury og Salisbury.

Talsmaður Theresu May, forsætisráðherra Bretlands, sagði í gær viðtalið vera móðgun við gáfnafar almennings.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Nudd Nudd Nudd
Whole body massage Downtown Reykjavik S. 6947881...
Sendibílaþjónustan Skutla. Sími 867-1234
Tökum að okkur allrahanda sendibílaþjónustu á sanngjörnu verði. Sjá nánar á www....
Sænsk sumar- og ferðaþjónustuhús
Vinsælu sænsku sumar- og ferðaþjónustuhúsin Leksand 32 m2 auk 8 m2 verandar eru ...