Kallar Kína „stóru systur“

Nicolas Maduro ræddi við fréttamenn við komuna til Peking í …
Nicolas Maduro ræddi við fréttamenn við komuna til Peking í nótt. AFP

Nicolas Maduro, forseti Venesúela, segir Kína eins og  „stóru systur“ en hann undirbýr nú fund með Xi Jinping, forseta Kína og aðalritara kínverska Kommúnistaflokksins. Vonast Maduro til að geta gert við hann samkomulag til bjargar efnahag lands síns.

Maduro kom til Peking í nótt og sagðist hafa miklar væntingar til fundarins. Sagðist hann vonast til þess að efla enn frekar tengslin við Kínverja sem eru helstu lánardrottnar Venesúela.

Sagðist Maduro m.a. ætla að ræða um fjárfestingar í orkumálum og um viðskiptasamninga af ýmsum toga.

Kínverjar hafa lánað Venesúela um 50 milljarða dala síðasta áratuginn og hafa stjórnvöld í landinu m.a. endurgreitt með olíu. Venesúela skuldar Kína enn um 20 milljarða dala. 

Mögulegt er að Maduro takist að tryggja enn frekar lánveitingar, líklega um 5 milljarða dala. „Kína er stóra systir okkar. Ég verð mjög glaður að hitta bróður okkar, Xi Jinping, í dag,“ sagði Maduro við komuna til Peking.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn spáir því að verðbólga í Venesúela verði um milljón prósent í lok árs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert