Kom heim í blóðugum fötum eftir morðið

Sunniva Ødegård var þrettán ára er hún var myrt.
Sunniva Ødegård var þrettán ára er hún var myrt.

Nóttina sem hin 13 ára gamla Sunniva Ødegård í Var­haug  var myrt kom drengurinn, sem síðar játaði á sig morðið, heim til sín í blóðugum fatnaði. Þetta var ástæða þess að faðir drengsins sendi hann næsta dag í yfirheyrslu hjá lögreglu, sem síðar ákærði hann fyrir morðið, að því er norska ríkisútvarpið NRK greinir frá.

Þegar drengurinn, sem er 17 ára, kom heim til sín spurði faðir hans hvaðan blóðið á fötum hans kæmi. Strákurinn sem hafði hjólað og gengið um Varhaug sagðist hafa lent í slagsmálum og faðir hans tók þá skýringu trúanlega.

Eftir að fjölmiðlar greindu hins vegar daginn eftir frá því að ung stúlka hefði fundist myrt í bænum vöknuðu áhyggjur hjá pabbanum yfir blóðinu á fatnaðinum. Hann ræddi málið við kunningja sem hvatti hann til að láta lögreglu vita. Hann hringdi því í lénsskrifstofuna Jæren og sagði 17 ára gamlan dreng vilja ræða við lögreglu í tengslum við morðmálið.

NRK hefur fengið þetta staðfest frá fleiri en einum heimildamanni.

Lögreglumenn rannsaka vettvang glæpsins.
Lögreglumenn rannsaka vettvang glæpsins. Ljósmynd/Marius Vervik/VG

Banaði Sunnivu með þungu höggi

Skömmu síðar var drengurinn mættur á lögreglustöðina í Stafangri. Hann viðurkenndi þá að hafa verið á staðnum en neitaði að hafa myrt Sunnivu og var á þeim tímapunkti talinn mögulegt vitni í málinu. Hann fékk þó fljótlega stöðu grunaðs í málinu.

NRK segir tæknideild lögreglu hafa rannsakað heimili drengsins síðar sama kvöld. Þar tók hún m.a. blóðuga fatnaðinn og sendi í rannsókn.

Sunniva fannst myrt skammt frá heimili sínu aðfaranótt mánudagsins 30. júlí, en hún hafði verið á heimleið eftir að vera í heimsókn hjá vini um kvöldið. Sama kvöld hafði drengurinn brotist inn í Trekløveren leikskólann í Varhaug með því að brjóta þar rúðu.

Drengurinn var ákærður fyrir morðið þriðjudaginn eftir að Sunniva fannst látin og viku síðar játaði hann að hafa orðið henni að bana með þungu höggi. Segir lögreglu tilviljun hafa ráðið því að Sunniva varð fyrir valinu, en telur umtalsverða hættu á að drengurinn brjóti af sér aftur.

Drengurinn dvelur nú í öryggisfangelsi í Stafangri þó hann hafi ekki náð sakhæfisaldri og var hann fluttur þangað eftir að aðeins vikudvöl í unglingafangelsi í Eidsvoll.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert