Njósnuðu um rannsóknarstofu í Sviss

Mennirnir eru grunaðir um að hafa njósnað um rannsóknarstouna Labor …
Mennirnir eru grunaðir um að hafa njósnað um rannsóknarstouna Labor Spiez. AFP

Tveir rússneskir menn voru handteknir fyrr á þessu ári vegna gruns um að hafa njósnað um svissneska rannsóknarstofu sem hafði til rannsóknar eitrið sem notað var í árás á Sergei Skripal, samkvæmt sameiginlegri rannsókn svissneska fjölmiðilsins Tages Anzeiger og hollenska fjölmiðilsins NRC.

Samkvæmt rannsóknum fjölmiðlanna tveggja munu mennirnir tveir hafa verið handreknir í Hollandi. Rannsóknarstofan í Sviss, sem mennirnir eru grunaðir um að hafa njósnað um, rannsakaði einnig möguleg efnavopn sem notuð hafa verið í stríðinu í Sýrlandi.

Í skýrslu fjölmiðlanna tveggja er fullyrt að mennirnir tveir hafi verið með búnað sem hægt hefði verið að nota til þess að brjótast inn í tölvukerfi rannsóknarstofunnar, sem og að mennirnir starfi fyrir rússneska leyniþjónustu. Þó er tekið fram að mennirnir séu ekki þeir sömu og Bretar hafa nafngreint og eru grunaðir um að hafa eitrað fyrir Skripal.

Svissneska leyniþjónustan staðfesti við fjölmiðlana að hafa unnið að málinu, auk þess sem breska leyniþjónustan er líkleg til að hafa komið þar að. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert