Opna samskiptastofu á landamærunum

Frá opnun samskiptaskrifstofunnar við landamæri Kóreuríkjanna.
Frá opnun samskiptaskrifstofunnar við landamæri Kóreuríkjanna. AFP

Kóreuríkin tvö hafa opnað samskiptaskrifstofu sem mun gera þeim kleift að eiga regluleg samskipti. Opnunin er stórt skref í sögu ríkjanna, en samskipti þeirra á milli hafa verið stirð síðan í Kóreustríðinu. BBC greinir frá því að skrifstofan sé staðsett rétt norðan við landamærin, sem varin eru af hermönnum beggja vegna.

Á skrifstofunni munu starfa allt að tuttugu frá hvoru landi og að sögn sameiningarráðherra Seúl, Cho Myoung-gyon, mun hún gera Norður- og Suður-Kóreu kleift að eiga bein samskipti 24 klukkustundir á sólarhring árið um kring.

Opnun samskiptaskrifstofunnar er undanfari þriðja fundar leiðtoga ríkjanna tveggja sem fram fer í Pyongyang í næstu viku. Moon Jae-in, leiðtogi Suður-Kóreu, gegnir hlutverki eins konar málamiðlara á milli Kims Jong-uns, leiðtoga Norður-Kóreu, og Donalds Trumps Bandaríkjaforseta. Sérfræðingar segja að Moon muni leitast við að gefa stöðnuðum viðræðum um kjarnorkuafvopnun Kóreuskaga innspýtingu.

Vel fór á með þeim Moon Jae-in, forseta Suður-Kóreu, og …
Vel fór á með þeim Moon Jae-in, forseta Suður-Kóreu, og Kim Jong-un, leiðtoga Norður-Kóreu á fundi þeirra í apríl. AFP

Samskipti á milli Norður- og Suður-Kóreu höfðu einungis farið fram með símskeytum og símtölum, sem oft var slitið ef upp kom ágreiningur, síðan í Kóreustríðinu allt þar til í apríl á þessu ári þegar Kim Jong-un varð fyrsti einræðisherra Norður-Kóreu til þess að hitta leiðtoga Suður-Kóreu síðan í stríðinu. Því má með sanni segja að opnun samskiptaskrifstofu landanna tveggja sé afar mikilvæg í sögu Kóreuskaga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert