Gagnsæir fiskar uppgötvaðir á hafsbotni

Fiskarnir myndu leysast upp ef ekki væri fyrir þrýstinginn.
Fiskarnir myndu leysast upp ef ekki væri fyrir þrýstinginn. AFP

Vísindamenn hafa uppgötvað þrjár nýjar tegundir fiska sem lifa á einu dýpsta svæði hafsins. Fiskarnir, sem eru gagnsæir og án hreisturs, hafa aðlagast aðstæðum sem myndu bana flestu öðru lífi á jörðinni.

Guardian greinir frá því að alþjóðlegt teymi vísindamanna hafi notast við hátæknimyndavélar til að uppgötva fiskana í Atacama-skurðinum í austurhluta Kyrrahafsins. Skurðurinn er um 7.500 metra djúpur og voru vísindamennirnir hissa á að finna fjölda fiska við slík lífsskilyrði. Fæstir fiskar ráða við svo mikla dýpt og ekki var búist við því að uppgötva þar nema einn eða tvo.

Beinagrind Atacama-sogfisksins.
Beinagrind Atacama-sogfisksins. AFP

Til bráðabirgða hafa fisktegundirnar þrjár verið nefndar bleikur, blár og fjólublár Atacama-sogfiskur. Þeir virðast hafa lagað sig að lífi á 7.500 metra dýpi þar sem niðamyrkur ríkir og sjávarhiti nær varla 2 stigum.

Á slíku dýpi er þrýstingurinn svo mikill að stærri dýr myndu brotna undan eigin líkamsþyngd, en vísindamenn hafa lýst því sem svo að þetta sé eins og að hafa 800 kg á litlafingri. Þeir telja líklegt að fiskarnir hafi aðlagast aðstæðum á botninum til að forðast rándýr.

Hörðustu bein í líkama fiskanna eru í innra eyranu, sem hjálpar þeim að halda jafnvægi, og tennurnar. Fiskarnir myndu raunar detta í sundur ef hinn mikli þrýstingur í sjávardjúpinu héldi þeim ekki saman.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert