Hvert einasta hús borgarinnar skemmdist

Fellibylur sem nú fer yfir Filippseyjar hefur orðið minnsta kosti fjórtán manns að bana. Þetta staðfestir talsmaður forseta landsins.

Fellibylurinn Mangkhut æddi yfir eyjuna Luzon á Filippseyjum í dag og er nú á leið í vesturátt að Kína. Nánast hver og ein einasta bygging í borginni Tuguegarao hefur orðið fyrir skemmdum vegna óveðursins. Fjarskipti liggja víðsvegar niðri.

Fjórar milljónir manna búa á þeim svæðum sem verst hafa orðið úti í dag og þúsundir tóku til þess ráðs að flýja. 

Tveir björgunarmenn eru í hópi hinna látnu en þeir höfðu farið á vettvang til að reyna að bjarga fólki úr aurskriðu. Þá herma fregnir að ung stúlka hafi drukknað í Marikina-ánni sem rennur í gegnum höfuðborgina Manila og hefur flætt yfir bakka sína.

Mjög mannskæður fellibylur, Haiyan, fór yfir Filippseyjar árið 2013 og lágu þá 7.000 manns í valnum. Í fyrstu var talið að Mangkhut yrði af svipaðri stærðargráðu en svo virðist ekki ætla að verða.

mbl.is