Sakar Kavanaugh um kynferðisbrot

Brett Kavanaugh ávarpar blaðamenn eftir að forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, …
Brett Kavanaugh ávarpar blaðamenn eftir að forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, tilkynnti um val á næsta dómara við hæstarétt. AFP

Christina Blasey Ford, bandarískur prófessor á sextugsaldri, hefur stigið fram undir nafni og sakað Brett M. Kavanough, dómaraefni Donalds Trump í Hæstarétt Bandaríkjanna, um kynferðislegt ofbeldi þegar þau voru í framhaldsskóla.

Demókratar í öldungadeild bandaríska þingsins höfðu áður fjallað um ásakanirnar og vísað þeim til bandarísku alríkislögreglunnar. Ford hefur nú ákveðið að skuli saga hennar verða sögð, þá verði hún sögumaður sjálf, að því er fram kemur í frétt Washington Post um málið.

Dómaranefnd þingsins tekur ákvörðun á fimmtudag um skipun Kavanaughs.

Hafi þuklað á Ford og reynt að afklæða hana

Ford sakar Kavanaugh um að hafa, í félagi við annan ungan mann, rekið sig inn í svefnherbergi í unglingasamkvæmi á heimili í Montgomery-sýslu. Þeir hafi báðir verið mjög ölvaðir og félaginn hafi horft á meðan Kavanaugh hafi reynt að fá sínu fram í rúmi í herberginu, þuklað á henni og misnotað.

Kavanaugh hafi reynt að klæða hana úr sundbol og fötum sem hún klæddist yfir honum. Einnig hafi hann sett hönd sína fyrir munn hennar þegar hún hafi reynt að kalla eftir hjálp. 

Ford segir að sér hafi tekist að flýja þegar Mark Judge, bekkjarbróðir og vinur Kavanaugh hafi hoppað ofan á þau og þau oltið niður úr rúminu. Ford segist hafa hlaupið út úr herberginu, læst sig inni á baðherbergi um stund og flúið húsið að lokum.

Ekki tjáð sig eftir að Ford steig fram

Ford greindi engum frá atvikinu fyrr en árið 2012 þegar hún sótti hjónabandsráðgjöf með eiginmanni sínum. Í minnispunktum sálfræðings úr ráðgjöfinni sem hafa verið opinberaðir kemur fram atvikalýsing Ford á árásinni, en þar er Kavanaugh ekki nafngreindur með beinum hætti.

Kavanaugh hefur hafnað ásökununum og neitað að tjá sig um málið eftir að Ford steig fram undir nafni. Mark Judge hefur tekið fyrir að atvikið hafi átt sér stað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert