Sextán látin vegna Flórens

Ár hafa víða flætt yfir bakka sína í Norður- og …
Ár hafa víða flætt yfir bakka sína í Norður- og Suður-Karólínu. AFP

Þrátt fyrir að vindhraðinn á áhrifasvæði hitabeltisstormsins Flórens hafi minnkað talsvert búa íbúar í Suður- og Norður-Karólínu á austurströnd Bandaríkjanna sig undir frekari hörmungar vegna látlausra rigninga og mikilla flóða, sem enn bætir í.

Sextán hafa látið lífið vegna stormsins, þar af tvö börn, samkvæmt frétt CNN.

Vegum hefur víða verið lokað vegna vatnselgs og í Norður-Karólínu gáfu samgönguyfirvöld út einfalda tilkynningu á vefsíðu  sinni: „Ekki er mælt með ferðalögum í eða í gegnum Norður-Karólínu.“

Borgin Wilmington, þar sem 117.000 manns búa, er algjörlega lokuð af úr öllum áttum vegna vatnsflaums og samkvæmt frétt CNN eru 703.000 heimili án rafmagns í Norður-Karólínu og á sjöunda tug í Suður-Karólínu, sem þýðir að rafmagnsleysið nær hugsanlega til milljóna manna.

Frá Wilmington í Norður-Karólínu. Allir vegir þangað eru ófærir vegna …
Frá Wilmington í Norður-Karólínu. Allir vegir þangað eru ófærir vegna vatnsflaums. AFP

Búist er við því að uppsöfnuð úrkoma sem fylgir Flórens, á þeim svæðum þar sem hún hefur verið og mun verða sem mest, verði allt að 1.000 millimetrar. Þessar gríðarlegu rigningar leiða til þess að ár flæða yfir bakka sína og talið er að þær muni ekki sjatna að fullu fyrr en síðar í vikunni. Þá geta miklar rigningar einnig valdið skriðum til fjalla.

Okrað á nauðstöddum

Það er auk þess ekki nóg með að náttúruhamfarirnar sem fylgja Flórens hafi valdið íbúum gríðarlegu tjóni og ama. Við þetta bætist að fjölmargir þeirra, sem hafa þurft að flýja umflotin heimili sín vegna Flórens, hafa kvartað til yfirvalda í Norður-Karólínu vegna okurs.

Samkvæmt CNN hafa yfir 500 kvartanir borist til yfirvalda vegna óeðlilega hás verðs á þjónustu og vörum á borð við gistingu, eldsneyti og vatn. Yfirvöld í ríkinu hafa þegar hafið rannsókn á þessum málum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert