Trump með frekari tolla í bígerð

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur ákveðið að leggja tolla á vörur frá Kína að verðmæti 200 milljarða dollara. Má búast við tilkynningu þess efnis næstu daga samkvæmt bandarískum fjölmiðlum. Frá þessu er greint í frétt AFP-fréttaveitunnar.

Dagblöðin Washington Post og Wall Street Journal segja að tollarnir verði 10% og er þar vísað í ónafngreinda heimildamenn. Trump hefur þegar sett 10% toll á innflutt stál og ál frá Kína sem og 25% toll á vörur frá Kína að verðmæti 50 milljarða dollara.

Frekari tollar grafa undan vonum um að draga kunni úr spennu í samskiptum Kína og Bandaríkjanna. Kínverskir ráðamenn tóku á fimmudaginn vel í boð frá bandarískum stjórnvöldum um viðræður um viðskiptamál landana.

Vonir voru bundnar við að mögulegar viðræður kynnu að færa efnahagsveldin tvö fjær þeim möguleika að út brjótist allsherjar viðskiptastríð á milli þeirra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert