Hlutlaust svæði í kringum Idlib

Vladimir Putin og Recep Tayyip Erdogan á fundinum í dag.
Vladimir Putin og Recep Tayyip Erdogan á fundinum í dag. AFP

Rússar og Tyrkir hafa samþykkt að setja upp hlutlaust svæði í kringum héraðið Idlib í Sýrlandi sem er undir stjórn uppreisnarmanna.

Vladimir Pútín, forseti Rússlands, greindi frá þessu eftir um fjögurra klukkustunda viðræður við Recep Tayyip Erdogan, forseta Tyrklands.

„Við höfum ákveðið að búa til hlutlaust svæði sem verður um 15 til 20 kílómetra langt, meðfram átakalínunni á milli hersveita stjórnarandstöðunnar og hersveita Sýrlandsstjórnar sem verður tilbúið 15. október á þessu ári,“ sagði Pútín.

Hann sagði að þetta fæli í sér að „allir uppreisnarmenn“ myndu draga sig til baka frá Idlib, þar á meðal samtökin Al-Nusra Front.

Leiðtogarnir tveir samþykktu að draga til baka þungavopn frá svæðinu, þar á meðal skriðdreka og eldflaugakerfi í eigu allra hersveita.

Tyrneskar hersveitir og rússneska herlögreglan munu sjá um að halda stjórn á svæðinu. 

Erdogan sagði eftir fundinn að samkomulagið hafi verið gert í þágu mannúðar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert