Kafarinn kærir Musk fyrir meiðyrði

Fyrsta ásökunin kom í kjölfar þess að Unsworth gagnrýndi Musk …
Fyrsta ásökunin kom í kjölfar þess að Unsworth gagnrýndi Musk fyrir að bjóða fram aðstoð við hellabjörgun drengjanna með kafbáti. AFP

Breski kafarinn Vernon Unsworth hefur kært milljarðamæringinn Elon Musk fyrir meiðyrði, en Musk hefur ítrekað sakað Unsworth um að vera barnaníðingur. Unsworth er einn þeirra kafara sem komu að björgun tólf taílenskra drengja úr helli fyrr á árinu.

BBC greinir frá því að Unsworth krefjist 75.000 Bandaríkjadala í skaðabætur, en upphæðin nemur rúmum átta milljónum íslenskra króna. Þá krefst hann þess að lögbann verði sett á að Musk komi fram með frekari ásakanir gegn honum.

Eins og áður segir hefur Musk, sem er stofnandi og eigandi Tesla, nokkrum sinnum sakað Unsworth um barnaníð án rökstuðnings eða sannana. Fyrsta ásökunin kom í kjölfar þess að Unsworth gagnrýndi Musk fyrir að bjóða fram aðstoð við hellabjörgun drengjanna með kafbáti, og sagði hann Musk aðeins vera að vekja athygli á sjálfum sér.

Musk baðst afsökunar eftir fyrstu ásökunina. Honum virðist síðan hafa snúist hugur og sendi hann blaðamanni tölvupóst þar sem hann kallaði Unsworth meðal annars barnanauðgara. Musk er með rúmar 22,5 milljónir fylgjenda á Twitter og í eitt skipti sagði hann eitthvað bogið við það að Unsworth hefði ekki kært hann fyrir ummælin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert