Íbúar ósáttir við lík í kæligámi

Kæligámurinn hefur vakið litla hrifningu hjá íbúum í Jalisco.
Kæligámurinn hefur vakið litla hrifningu hjá íbúum í Jalisco. AFP

Flutningabíll með kæligámi sem geymir 100 lík hið minnsta hefur vakið mikla reiði hjá íbúum í Jalisco-fylki í Mexíkó, en þeir kvarta m.a. undan lyktinni sem frá honum berst.

BBC hefur eftir yfirvöldum í fylkinu að þau séu að reyna að finna kæligáminum nýjan stað, en hann var tekinn á leigu eftir að líkhús í borginni Guadalajara fylltust.

„Við erum með fullt af börnum í hverfinu [...] þetta gæti gert okkur öll veik,“ sagði José Luis Tovar einn íbúanna.

Samkvæmt mexíkóskum lögum er bannað að brenna lík í þeim málum sem tengjast ofbeldisglæpum og eru yfirvöld í Jalisco nú að leita nýrra langtímalausna fyrir geymslu líkanna í kjölfar ofbeldisöldu sem gengið hefur yfir.

„Við áttum ekkert pláss eftir í kirkjugörðum til að grafa þá,“ segir Luis Octavio Cotero, yfirmaður tæknideildar lögreglu í Jalisco, við AFP-fréttastofuna. Hann segir þó verið að undirbúa nýjan reit þar sem hægt verði að grafa 800 lík.

Kæligáminum hafði áður verið komið fyrir framan við vörugeymslu í Duraznera-hverfinu í útjaðri Guadalajara. Eftir að hann hafði staðið þar í hálfan mánuð tóku íbúar í hverfinu hins vegar að kvarta undan lyktinni og sögðu flugur leita í gáminn. Þá var hann fluttur á auða lóð í Tlajomulco de Zúñiga-úthverfinu, en íbúar þar byrjuðu að kvarta um helgina.

„Við viljum ekki hafa hann hérna. Þeir verða að setja hann einhvers staðar annars staðar. Það er vond lykt af honum,“ sagði Tovar.

Mikið hefur verið um ofbeldisdráp í Mexíkó undanfarin ár, en frá því í desember 2006 er stjórnvöld í landinu skáru upp herör gegn ofbeldisglæpum, hafa rúmlega 200.000 manns verið myrtir eða horfið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert