Minnka flóttamannakvótann í 30.000

Landamæravörður að störfum á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó.
Landamæravörður að störfum á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó. AFP

Bandarísk stjórnvöld hafa tilkynnt að þau muni fækka þeim fjölda flóttamanna sem verði leyft að koma til landsins niður í 30.000 og hefur fjöldinn ekki verið minni frá því fyrir árásirnar á tvíburaturnana, að því er BBC greinir frá.

Donald Trump Bandaríkjaforseti heimilaði 45.000 flóttamenn í fyrra og árið áður hljóðaði kvótinn upp á 50.000 flóttamenn.

Utanríkisráðherran Mike Pompeo tilkynnti þetta nýja „þak“ á fjölda flóttamanna og sagði við það tækifæri að bandarísk yfirvöld geri ráð fyrir að ljúka úrvinnslu í málefnum 280.000 hælisleitenda það ár.

Flóttamannakvótinn hefur ekki verið lægri frá því 2002, en það ár tóku bandarísk stjórnvöld á móti 27.131 flóttamanni.

Undanfarinn áratug hefur fjöldi flóttamanna sem Bandaríkin hafa tekið á móti sveiflast frá  48.282 árið 2007 og upp í 84.995 árið 2016, sem var metár.

Flóttamannaáætlun Bandaríkjanna var komið á fót árið 1980 og segir New York Times enga stjórn hafa áður lagt til jafnlágan kvóta frá því að áætlunin var sett upp.

Stjórn Trumps hefur leitast við að herða eftirlit og aðgengi innflytjenda að landinu og hafa gagnrýnendur sakað hana um að draga með því úr vernd þeirra sem mest þurfi á aðstoð að halda.

Eric Schwartz, forstjóri flóttamannasamtakanna Refugees International, segir nýja kvótann vera „hörmung“.

Pompeo segir hins vegar rangt að líta á flóttamannakvótann sem einu mælistikuna á aðstoð Bandaríkjanna við þá sem minna mega sín um heiminn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert