Rússnesk herþota hverfur yfir Miðjarðarhafi

Rússnesk herflugvél. Mynd úr safni.
Rússnesk herflugvél. Mynd úr safni. AFP

Rússnesk herþota með 14 manns innanborðs hvarf af radar á flugi yfir Miðjarðarhafi, skammt frá Sýrlandsströnd, seint í gærkvöldi, að því er BBC greinir frá.

Vélin, sem er af gerðinni Ilyushin Il-20, var á leið í rússnesku herstöðina Hmeimin í borginni Latakia í norðvesturhluta landsins er hún hvarf.

Í yfirlýsingu rússneska varnarmálaráðuneytisins segir að ekkert sé vitað um afdrif vélarinnar, en að samband við hana hafi rofnað er hún var um 35 kílómetra frá strönd Sýrlands og leit sé nú hafin.

Rússneska ríkisfréttastofan TASS segir vélina hafa horfið er hún varð fyrir árás fjögurra ísraelskra F-16 þota sem voru að gera árás á sýrlensk mannvirki í Latakia-héraði. „Á sama tíma urðu rússnesk radarkerfið vör við eldflaug sem skotið var á loft frá frönsku freigátunni Auvergne  sem staðsett var á svæðinu,“ sagði í frétt TASS.

Franski herinn neitar því alfarið í samtali við AFP-fréttastofuna að eiga nokkra aðild að slíkri árás.

Fréttastofa CNN segir hins vegar skot úr sýrlenskri loftvarnarbyssu, sem skotið var á ísraelsku flugskeytin hafa hæft rússnesku þotuna. CNN hefur eftir bandarískum embættismanni að eitt skotanna úr loftvarnarbyssunni hafi hæft rússnesku þotuna. Samkvæmt heimildum CNN fréttu Bandaríkin af atvikinu þegar sýrlenski stjórnarherinn kallaði eftir aðstoð á alþjóðlegri bylgju. Bandarísk stjórnvöld hafi svo síðar fengið sömu skilaboðin frá öðru ríki, sem embættismaðurinn vildi ekki tilgreina.

Rússneski herinn hefur tekið þátt í hernaðarátökum í landinu frá 2015 og veitt stjórnarher Bashar al-Assad Sýrlandsforseta stuðning.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert