Deila Bandaríkjanna og Kína magnast

Flutningaskip lestað í Lianyungang í Kína. Óvíst er hvernig Kínverjar ...
Flutningaskip lestað í Lianyungang í Kína. Óvíst er hvernig Kínverjar munu svara nýjum innflutningstollum Bandaríkjamanna. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti tilkynnti í gærkvöldi að Bandaríkin hygðust leggja innflutningstolla á kínverskar vörur að andvirði 200 milljarða Bandaríkjadala. Þessi aðgerð er umfangsmeiri en fyrri skærur í viðskiptadeilu ríkjanna tveggja.

Trump hótaði því enn fremur að leggja „samstundis“ innflutningstolla á vörur að andvirði 267 milljarða dala til viðbótar, ef Kínverjar gripu til hefndaraðgerða gegn bandarískum bændum og öðrum iðnaði. Það myndi þýða að nær allur útflutningur Kínverja til Bandaríkjanna myndi sæta innflutningstollum.

Samkvæmt frétt BBC sjá Kínverjar ekki annan kost í stöðunni en að bregðast við þessum nýju tollum, sem taka munu gildi 24. september. Ekki er þó búið að gefa út með hvaða hætti það verður gert.

Tollarnir sem Trump tilkynnti í gær ná til 6.000 innflutningsvara og verða 10% til að byrja með, en hækka í 25% um áramót, nema ríkin tvö nái samkomulagi um annað.

Þessir tollar bætast ofan á fyrri tolla sem Bandaríkjastjórn hefur lagt á kínverskar innflutningsvörur að andvirði 50 milljarða dala, en Kínverjar hafa svarað þeim aðgerðum í sömu mynt.

Sem áður segir liggur ekki fyrir hvernig Kínverjar munu bregðast við í þetta skiptið, en margir óttast mögulegar afleiðingar tollastríðs á milli þessara tveggja ríkja, sem eru með tvö stærstu hagkerfi veraldar.

Af hverju eru Bandaríkin að gera þetta?

Yfirlýst stefna Bandaríkjaforseta er að refsa Kínverjum fyrir ósanngjarna viðskiptahætti, ekki síst hvað varðar hugverkastuld þarlendra fyrirtækja. Það kemur glöggt fram í yfirlýsingu hans að Kínverjar hafi ekki komið til móts við kröfur stjórnvalda í Washington.

„Við höfum beðið Kínverja um að láta af þessum ósanngjörnu aðferðum og koma heiðarlega fram við bandarísk fyrirtæki. Við höfum verið mjög skýr með það hvaða breytingar þurfa að eiga sér stað og höfum gefið Kína fullt tækifæri til þess að koma fram við okkur á sanngjarnari hátt. En hingað til hafa Kínverjar verið ófáanlegir til að láta af athæfi sínu,“ sagði Trump í yfirlýsingu sinni.

Donald Trump og Xi Jinping saman í Kína í fyrra.
Donald Trump og Xi Jinping saman í Kína í fyrra. AFP

Embættismenn Hvíta hússins sögðu í gær að Kínverjar gætu mögulega komið sér undan nýju tollunum með því að bregðast við og láta eftir kröfum Bandaríkjamanna, sem eru meðal annarra þær að bandarísk fyrirtæki fái aukinn aðgang að mörkuðum í Kína og að bandarísk fyrirtæki geti starfað með kínverskum fyrirtækjum í Kína, án þess að láta verðmætar tækniupplýsingar af hendi.

Hvernig munu Kínverjar bregðast við?

Ekki er víst hvernig Kínverjar munu bregðast við þessum nýjustu tollum, en James Zimmerman, lögmaður í Peking og fyrrverandi stjórnarformaður viðskiptaráðs Bandaríkjanna þar í borg, segir við New York Times að Kínverjar muni ekki taka nýju tollunum þegjandi.

„Kínverjarnir eru brjálaðir (e. livid) og að leggja drög að sinni eigin orrustuáætlun,“ segir Zimmerman.

Þá hafa embættismenn í Kína látið hafa eftir sér að aðgerðir Kínverja gætu beinst að bandarískum fyrirtækjum sem framleiða vörur á borð við síma, bíla og sjónvörp úr kínverskum íhlutum. New York Times greinir frá því að slíkir tollar gætu verið settir á bandarískar vörur að andvirði 60 milljarða Bandaríkjadala.

Flutningaskip frá Maersk siglir til hafnar í New York.
Flutningaskip frá Maersk siglir til hafnar í New York. AFP

Lou Jiwei, fyrrverandi fjármálaráðherra Kína og nú háttsettur félagi Kommúnistaflokksins, hefur einnig sagt að Kínverjar gætu valdið bandarískum fyrirtækjum miklum skaða með því að stöðva einfaldlega útflutning á tilteknum vörum sem bandarísk fyrirtæki þurfa á að halda í framleiðsluferli sínu.

Iðnaðarforkólfar óhressir með tollana

Mörg bandarísk fyrirtæki og ýmis hagsmunasamtök atvinnulífsins vestanhafs hafa lýst yfir áhyggjum af frekari viðskiptaskærum á milli Bandaríkjanna og Kína og segja tolla á Kínverja vera skaðlega fyrir bandarískan efnahag.

Bandaríski miðillinn Axios tók saman viðbrögð nokkurra þeirra og hafa til dæmis eftir Tom Donohue, framkvæmdastjóra viðskiptaráðs Bandaríkjanna, að nýja tollaákvörðunin sýni að Bandaríkjastjórn hafi ekki hlustað á varnaðarorð bandarískra neytenda og fyrirtækja, sem hafi áhyggjur af auknum kostnaði og töpuðum störfum í þjónustugeiranum, iðnaði og í landbúnaði um öll Bandaríkin.

„Bæði ríkin ættu að setjast við samningaborðið og Bandaríkin ættu að vinna með bandamönnum sínum að öðrum lausnum,“ segir Donohue.

„Enginn vinnur í viðskiptastríði,“ segir Jay Timmons, framkvæmdastjóri NAM, landssamtaka framleiðenda, en hann er þó bjartsýnn á að nálgun Bandaríkjastjórnar muni leiða til þess að deilan leysist fyrr en síðar.

Hver dagur sem líður án þess að Bandaríkin og Kína færist nær tvíhliða viðskiptasamningi eykur þó möguleikann á því að framleiðslugeirinn í Bandaríkjunum verði fyrir skaða, segir Timmons.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Húsgagnaviðgerðir og bólstrun
Ég tek að mér viðgerðir og bólstrun á gömlum og nýjum húsgögnum. Starfsemin fer ...
Óskum eftir ömmu/afa sem getur mætt að
Óskum eftir ömmu/afa sem getur mætt að passa, nokkur skipti í mánuði kl. 5 á mor...
ERNA 95 ára, hreinsum til á lagernum.
25 til 75% afsláttur. Silfurmunir, skartgripir, armbandsúr og gjafavara. Gott tæ...
Nudd Nudd Nudd
Whole body massage Downtown Reykjavik S. 6947881...