Vilja fjárfesta í vörnum Grænlands

Bandarísk F-16-orrustuþota.
Bandarísk F-16-orrustuþota. Ljósmynd/Wikipedia.org

Bandarísk stjórnvöld hafa áhuga á leggja fram fjármuni til uppbyggingar á mannvirkjum á Grænlandi með það fyrir augum að styrkja stöðu Bandaríkjanna og Atlantshafsbandalagsins (NATO) gagnvart norðurslóðum. Þetta kemur fram í viljayfirlýsingu frá varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna sem birt hefur verið á vefsíðu bandaríska sendiráðsins í Danmörku og undirritað er af John Rood, undirráðherra í bandaríska varnarmálaráðuneytinu.

Vísað er í yfirlýsingunni til farsæls samstarfs Bandaríkjanna og Danmerkur þegar að varnarsamstarfi á Grænlandi komi. Fram kemur að í ljósi þróunar heimsmálanna viðurkenni Bandaríkin vaxandi mikilvægi norðurslóða fyrir alþjóðahagkerfið og öryggi þess heimshluta. Bandaríkin og Danmörk eigi sameiginlegra hagsmuna að gæta varðandi bætt öryggi innan svæðisins, auknar upplýsingar um stöðu mála og að draga úr spennu innan þess.

Pentagon, bandaríska varnarmálaráðuneytið.
Pentagon, bandaríska varnarmálaráðuneytið. AFP

Enn fremur segir að yfirlýsingin feli í sér vilja til þess að fjárfesta á Grænlandi í því skyni að stuðla að auknu svigrúmi Bandaríkjahers til þess að grípa til aðgerða og afla upplýsinga um stöðu mála innan þess með það fyrir augum að geta brugðist við breyttri stöðu öryggismála á norðurslóðum. Vilji sé til þess að setja mikla fjármuni í slíkar fjárfestingar á Grænlandi. Þar á meðal fjárfestingar sem nýtist bæði til varnarmála og borgaralegrar starfsemi.

Vilja fjárfesta í flugvallarmannvirkjum

Tekið er sem dæmi í þeim efnum að varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna hafi áhuga á að fara í greiningarvinnu á því hvar sé ástæða til þess að fjárfesta í verkefnum tengdum flugvallarmannvirkjum á Grænlandi. Slíkar fjárfestingar væru hugsaðar, sem fyrr segir, til þess að styrkja möguleika Bandaríkjanna og NATO til þess að grípa til aðgerða á Norður-Atlantshafi og Bandaríkjunum, Danmörku og íbúum Grænlands til hagsbóta.

Frá Grænlandi.
Frá Grænlandi. mbl.is/Ómar Óskarsson

Fjallað er um yfirlýsinguna á grænlenska fréttavefnum Sermitsiaq.ag og haft eftir Vivian Motzfeldt, utanríkisráðherra Grænlands, að þarlend stjórnvöld fagni áhuga Bandaríkjamanna á að fjárfesta í vörnum landsins og séu reiðubúin að hefja viðræður við bandaríska ráðamenn um frekari útfærslu á slíkum fjárfestingum. Fram kemur í yfirlýsingu frá utanríkisráðuneytinu að enn liggi þó ekki nánari upplýsingar fyrir um málið.

Hliðstæð sjónarmið eru höfð eftir Anders Samuelsen, utanríkisráðherra Danmerkur, sem leggur áherslu á gott varnarsamstarf Bandaríkjanna og Danmerkur. Mikilvægi Norðurslóða fari vaxandi. Þá er haft eftir Claus Hjort Frederiksen, varnarmálaráðherra Danmerkur, að ljóst sé að aukin þörf verði á viðveru og eftirliti á norðurslóðum í framtíðinni vegna vaxandi umferðar um þær. Þá bæði í hernaðarlegum og borgaralegum tilgangi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert