Yfirmanni leyniþjónustu vikið úr embætti

Hans-Georg Maassen.
Hans-Georg Maassen. AFP

Þýska ríkisstjórnin hefur ákveðið að víkja yfirmanni leyniþjónustunnar BfV, sem sérhæfir sig í innanlandsmálum Þýskalands, úr embættinu og færa hann yfir í aðra stöðu í innanríkisráðuneytinu.

Með þessu var brugðist við deilum vegna viðbragða yfirmannsins, Hans-Georg Maassen, í kjölfar átaka öfgahægrimanna í borginni Chemnitz í austurhluta Þýskalands, að sögn BBC

Greint var frá svokölluðum „veiðum“ andstæðinga flóttamanna í bænum 25. ágúst eftir að þýskur maður lést eftir átök við flóttamenn.

Maassen hafði lýst yfir efasemdum um að fólk sem líti út fyrir að vera af erlendu bergi brotið hafi verið ofsótt á þennan hátt. Angela Merkel, kanslari Þýskalands, var í framhaldinu hvött til að reka hann fyrir að gera lítið úr málinu.

Þýskir fjölmiðlar greindu frá því að Maassen muni færast yfir í hærri launaflokk í nýja starfinu í innanríkisráðuneytinu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert