Fundurinn stökk fram á við til friðar

Moon Jae-in, forseti Suður-Kóreu, og Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu, stilla …
Moon Jae-in, forseti Suður-Kóreu, og Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu, stilla sér upp fyrir myndatöku að fundi loknum. AFP

Norður-Kórea mun loka helsta tilrauna- og skotpallasvæði sínu fyrir eldflaugatilraunir, að því er BBC hefur eftir Moon Jae-in, forseta Suður-Kóreu. Þeir Moon og Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu, funduðu í höfuðborg Norður-Kóreu, Pyongyang, í gær og segir Moon þá hafa náð samkomulagi um leið að afvopnavæðingu kjarnavopna á Kóreuskaga.

Kim hefur þá lýst fundinum sem „stökki fram á við“ í átt að hernaðarfriði á svæðinu.

Þá kvaðst hann einnig vonast til að heimsækja Seoul, höfuðborg Suður-Kóreu, í nánustu framtíð. Verði af heimsókninni þá verður það í fyrsta skipti sem leiðtogi Norður-Kóreu heimsækir Seoul frá skiptingu Kóreuskagans.

Helsta áherslumál fundarins var þó afvopnavæðing kjarnavopna. Kim og Donald Trump Bandaríkjaforseti komust að samkomulagi um afvopnavæðingu á leiðtogafundi sínum í Singapore í júní, en verulega hefur hægt á viðræðum um útfærslu afvopnavæðingarinnar  undanfarið.

Sagði Moon Kim hafa fallist á að loka endanlega Tongchang-ri-tilraunasvæðinu og að þetta yrði gert í viðurvist sérfræðinga frá þeim þjóðum sem ættu aðild að málinu svo þeir gætu sannreynt að ekki væri hægt a nota svæðið.

Þá hefði Kim einnig fallist á að loka kjarnorkumannvirkjunum í Yongbyon, en þar er talið að Norður-Kórea hafi framleitt efnin fyrir kjarnorkuprófanir sínar. Þetta væri þó þeim skilyrðum háð að bandarísk stjórnvöld gripu til gagnkvæmra aðgerða, en ekki var greint frá hverjar þær væru.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert