Draugablokkir táknmynd hrunsins

Eitt af draugahverfunum í Caracas. Ljósin eru flest slökkt.
Eitt af draugahverfunum í Caracas. Ljósin eru flest slökkt. AFP

Fyrir þremur árum pökkuðu Francisco Rojas og Elena kona hans helstu nauðsynjum niður í fjórar ferðatöskur og yfirgáfu íbúð sína í Caracas, höfuðborg Venesúela, buguð af efnahagskreppunni í landinu.

Íbúðin hefur staðið tóm síðan. Tannburstar þeirra standa enn á vaskinum í baðherberginu og ísskápurinn, þótt tómur sé, er enn í gangi. Barinn er hins vegar tómur fyrir utan eina rommflösku.

Tómar íbúðir og auðar íbúðablokkir eru ein táknmynda efnahagshrunsins í Venesúela, þar sem fjöldi Venesúelabúa hefur kosið að flýja land í von um betra líf utan heimalandsins.

Væri fáránlegt að selja

Elena fékk vinnu í Ekvador og eftir það hafa þau ekki horft til baka. Hún vinnur sér nú inn jafnmikið á einum mánuði og hún fékk í laun á fjórum árum í Caracas.

Þegar þau yfirgáfu Venesúela læstu þau einfaldlega hurðinni á íbúð sinni frekar en að reyna að selja hana, þó að viðbótarfé hefði vissulega hjálpað. Þau keyptu íbúðina árið 2014 fyrir andvirði 100.000 dollara og nú er verðgildi hennar helmingi lægra.

Okkur langaði að sjá hvernig mál myndu þróast og nú þegar við erum búin að koma okkur fyrir, þá væri fáránlegt að selja hana,“ hefur AFP eftir Francisco Rojas sem er íþróttafréttamaður.

Draugabyggðunum fjölgar

Í Venesúela fjölgar stöðugt auðum fjölbýlishúsum sem eru orðin að draugabyggingum. Þar eru ljósin aldrei kveikt, bílastæðin eru alltaf auð og póstkassarnir eru fullir af pósti sem enginn les.

Nýr iðnaður hefur sprottið upp úr kreppunni, fyrirtæki sem taka að sér að hafa umsjón með yfirgefnum heimilum. Meðal þeirrar þjónustu sem boðið er upp á er greiðsla á opinberum gjöldum, mæting á húsfundi og jafnvel að kveikja ljósin reglulega til að fæla frá innbrotsþjófa.

Ein af tómu íbúðunum í Caracas. Íbúar skilja flesta muni …
Ein af tómu íbúðunum í Caracas. Íbúar skilja flesta muni eftir og flýja land með nokkrar ferðatöskur. AFP

Samkvæmt tölum Sameinuðu þjóðanna hefur um 1,6 milljón Venesúelabúa flúið land frá 2015 og búa nú 2,3 milljónir Venesúelabúa utan heimalandsins, en það eru 7,5% af öllum landsmönnum.

Rojas-hjónin voru orðin þreytt á óörygginu, skorti á matvælum og lyfjum og svo óðaverðbólgunni, sem gerði laun þeirra svo gott sem verðlaus, er þau flúðu. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) hefur spáð því að verðbólga í Venesúela nái milljón prósentum á þessu ári.

Vilja geta snúið aftur

Margir þeirra sem yfirgefa landið vonast þó til að geta snúið aftur heim.

„Ef ástandið batnar þá sjáum við til hvort við komum aftur til Venesúela eða seljum íbúðina,“ segir Francisco. Í augnablikinu er fasteignamarkaðurinn hins vegar ekki hagstæður þeim sem vilja selja.

Roberto Orta, formaður félags fasteignasala í Caracas, segir fasteignir í borginni hafa misst 70-80% af verðgildi sínu undanfarin fimm ár.

„Íbúð sem kostaði 170.000 dollara er ekki metin á nema 70.000 dollara í dag. Sumir bjóða jafnvel 50.000 dollara og þá velur eigandinn frekar að hafa hana læsta,“ sagði fasteignasalinn Carolina Quintero í samtali við AFP.

Mariana Garcia, endurskoðandi sem flúði land í fyrra með eiginmanni og tveimur börnum, segir heimili þeirra hafa lækkað í verði um helming. Þau hafi því ákveðið að eiga það áfram.

„Við læstum húsinu, skildum það eftir óhreyft og fórum með bara tvær ferðatöskur,“ sagði Garcia sem býr nú í Bandaríkjunum þar sem manni hennar bauðst vinna.

„Jafnvel þó að maður eigi peninga er ekkert til að kaupa og það er ekkert vatn,“ sagði Garcia og útskýrir að þau hafi ákveðið að yfirgefa landið áður en það væri of seint.

Draugablokkir eru nú víða í Carcas og íbúðum þar sem …
Draugablokkir eru nú víða í Carcas og íbúðum þar sem ljósin eru aldrei kveikt fer fjölgandi. AFP

Óttast að missa heimilin til hústökufólks

Þó að fasteignaeigendur sem flutt hafa utan séu tregir til að selja hús sín vilja þeir heldur ekki leigja þau, þar sem þeir óttast að erfitt geti verið að ná húsinu aftur úr höndum leigjenda. Yfirvöld í Venesúela koma oft í veg fyrir útburð leigjenda jafnvel þó að leigusamningar hafi verið brotnir.

Carlos Gonzalez, formaður landssambands fasteignasala, segir að óðaverðbólgan feli í sér að það sé ekki þess virði að leigja út hús í bólivörum, sem er mynt Venesúela, og fáir hafi aðgang að dollurum, sem ekki hafi verið fáanlegir nema á svarta markaðinum frá 2003.

Ýmsir fasteignaeigendur hafa þá áhyggjur af hústökufólki og í sumum fjölbýlishúsum eru nágrannar beðnir um að svara ekki spurningum þeirra sem spyrja út í tómar eignir.

„Þeir sem ganga fram hjá sjá íbúðir þar sem ljósin eru slökkt,“ segir Quintero.

Í miðstéttarhverfinu Los Palos Grandes, hafa nokkrir hústökumenn verði bornir út af lögreglu, segir Rafael Guerra, sem er í hverfiseftirlitinu.

Í La Florida kom hústökufólk sér fyrir í fyrirtækjum á meðan starfsfólk þar var í fríi. „Þeir stálu öllu. Lögregla rak þá út en þeir voru ekki handteknir,“ segir einn starfsmannanna.

Andstæðingar Nicolas Maduro Venesúelaforseta kenna forvera hans á forsetastóli, Hugo Chavez, um hústökurnar. Chaves samþykkt lög árið 2011 sem áttu að „bjarga borgarlandinu“.

Rojas-hjónin eru meðal þeirra fjölmörgu sem óttast að þau muni missa íbúð sína til hústökufólks. „Við óttumst að það verði farið inn í hana. Það eru margar tómar íbúðir og fjölskylda okkar er alltaf að fylgjast með henni,“ segir Francisco Rojas.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert