Fjarlægja saumnálar úr verslunum

Jarðarberjaræktandinn Aidan Young er meðal jarðarberjabænda sem hafa þurft að …
Jarðarberjaræktandinn Aidan Young er meðal jarðarberjabænda sem hafa þurft að henda hluta af uppskeru sinni vegna uppákoma þar sem nálar hafa fundist í jarðarberjum í þremur fylkjum í Ástralíu. AFP

Ástralska matvöruverslanakeðjan Woolworth hefur fjarlægt saumnálar úr verslunum sínum tímabundið af öryggisástæðum. Hið furðulegasta mál skekur nú áströlsku þjóðina þar sem saum­nál­ar hafa fund­ist í jarðarberja­öskj­um í sex fylkj­um og hef­ur málið valdið ótta hjá al­menn­ingi í land­inu.

Yf­ir­völd í Ástr­al­íu hafa fyr­ir­skipað rann­sókn á fundi saum­nála í jarðarberj­um og hafa heil­brigðis­yf­ir­völd hvatt fólk til að skera jarðarber í sund­ur áður en þeirra er neytt. Þá hafa einnig komið upp nokkur tilfelli þar sem nálar fundust í eplum og banönum.

Yfirvöld hafa einnig tilkynnt að þau muni taka upp harðari refs­ing­ar vegna saum­nála sem fund­ist hafa í ávöxtum.

Rann­sókn hófst á mál­inu eft­ir að maður að nafni Jos­hua Gane greindi frá því á Face­book að vin­ur hans hefði mátt þola veru­leg­an sárs­auka í melt­ing­ar­fær­um eft­ir að hafa borðað jarðarber með nál í.

Margir jarðarberjaræktendur segja að viðbrögðin við nálarfundunum séu yfirdrifin. Forsvarsmenn Woolworth segjast fyrst og fremst vera að gæta hagsmuna viðskiptavina sinna með því að taka nálarnar úr sölu.

Markaðsfræðingurinn Paul Nelson segir í samtali við BBC að Woolworth sé að einhverju leyti að sýna samfélagslega ábyrgð með því að fjarlægja nálarnar en á sama tíma sé hægt að færa rök fyrir því að keðjan vilji taka þátt í umræðunni sem fylgir uppákomunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert