Trump lagði til landamæravegg yfir Sahara

Donald Trump segir að ætlun hans að byggja vegg við …
Donald Trump segir að ætlun hans að byggja vegg við landamæri Mexíkó til þess að stöðva fólks­flutn­inga til lands­ins og eit­ur­lyfja­smygl hafi verið meðal bestu kosningaloforða hans. AFP

Með því að reisa landamæravegg þvert í gegnum Sahara-eyðimörkina væri hægt að koma í veg fyrir innflytjendakrísuna í Evrópu. Það er að minnsta kosti mat Donalds Trump Bandaríkjaforseta, sem ráðlagði Josep Borell, utanríkisráðherra Spánar, að reisa slíkan vegg.

Ráðið veitti Trump þegar Borell heimsótti Bandaríkin ásamt spænsku konungshjólunum í júní. Borell greindi frá þessu samtali sínu við forsetann á hádegisviðburði í Madríd í vikunni. BBC greinir frá.

Trump sagði jafnframt að ætlun hans að byggja vegg við landamæri Mexíkó til þess að stöðva fólks­flutn­inga til lands­ins og eit­ur­lyfja­smygl hafi verið meðal bestu kosningaloforða hans.

„Landamærin við Sahara eru varla stærri en landamæri okkar og Mexíkó,“ á Trump meðal annars að hafa sagt við Borell. Landamæri Mexíkó og Bandaríkjanna eru um þrjú þúsund kílómetra löng en Sahara-eyðimörkin er tæplega fimm þúsund kílómetrar að lengd. Spánn hefur ekkert tilkall til yfirráða í eyðimörkinni en það gera hins fjölmörg önnur ríki. Það gæti því reynst þrautinni þyngri fyrir spænsk yfirvöld að byggja landamæravegg í eyðimörkinni.

Borell hefur ekkert sagt til um hvernig hann tók í þessar ráðleggingar Trumps en talsmaður utanríkisráðuneytis Spánar staðfestir að samtalið hafi átt sér stað.

Frá því í janúar hafa 35.000 flóttamenn komið til Spánar, fleiri en í nokkru öðru landi innan Evrópusambandsins.

Ekki stendur til að reisa sérstakan landamæravegg á Spáni líkt …
Ekki stendur til að reisa sérstakan landamæravegg á Spáni líkt og Trump ráðlagði utanríkisráðherra landsins í sumar. Hér má hins vegar sjá eins konar landamæragirðingu við landamæri Spánar og Gíbraltar. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina