Börnum á flótta fjölgar um þriðjung

Um 7.000 manns dvelja nú í Moria-flóttamannabúðunum sem eru ætlaðar …
Um 7.000 manns dvelja nú í Moria-flóttamannabúðunum sem eru ætlaðar fyr­ir 2.000 manns. AFP

Börnum á flótta sem koma í flóttamannabúðir á eyjum við Grikkland hefur fjölgað um þriðjung frá því í fyrra. Yfir sjö þúsund börn, um 850 börn á mánuði að meðaltali, hafa lifað af hættuför yfir hafið og komið til grísku eyjanna það sem af er ári. Eftir því sem fjöldinn eykst verða aðstæður í miðstöðvunum sem hýsa börnin hættulegri.

Skráningarmiðstöð fyr­ir þá hæl­is­leit­end­ur og flótta­menn sem eru að reyna að kom­ast til Evr­ópu hefur verið hýst á grísku eyjunni Les­bos, sem er skammt frá strönd­um Tyrk­lands, frá 2015.

Evrópuríki tryggi öryggi og vernd barna á flótta

UNICEF greinir frá því að búist er við að börnum á flótta komi til með að fjölga eftir því sem líður á árið. UNICEF hefur miklar áhyggjur af ástandinu og kallar eftir því að ríki Evrópu vinni betur saman að því að tryggja öryggi og vernd barna og fólks á flótta.

Flótta­mannaaðstoð Sam­einuðu þjóðanna (UN­HCR ) hefur hvatt yf­ir­völd í Grikklandi til að flýta flutn­ingi til meg­in­lands­ins á þeim hæl­is­leit­end­um á Les­bos sem tald­ir eru eiga mögu­leika á aðstoð, sérstaklega börnum, þar sem ástandið í mót­töku­búðunum á Les­bos, sem eru yf­ir­full­ar, sé komið að „suðupunkti“.

Um það bil 80 prósent þeirra 20.500 flóttamanna sem eru í móttökubúðum á grísku eyjunum, þar af fimm þúsund börn, þurfa að hafast við í óviðeigandi aðstæðum í yfirfullum búðum.

Dvelja í búðunum svo mánuðum skiptir

Samkvæmt grískum lögum eiga þeir sem leita aðstoðar í móttökubúðum ekki að eyða meira en 25 dögum í búðunum áður en þeim er veitt frekari aðstoð. Því hefur ekki tekist að framfylgja, þrátt fyrir vilja starfsmanna og sjálfboðaliða móttökubúðanna. Sum barnanna hafa verið í búðunum í yfir ár.  

UNICEF hefur aðstoðað börn og fjölskyldur þeirra á flótta síðan 2016, meðal annars tryggt aðgengi að þjónustu, sálrænum stuðningi, fjölskyldusameiningu, aðgengi að heilbrigðisþjónustu og menntun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert