Forseti Víetnam látinn

Tran Dai Quang, forseti Víetnams, er látinn, 61 árs að …
Tran Dai Quang, forseti Víetnams, er látinn, 61 árs að aldri. AFP

Forseti Víetnam, Tran Dai Quang, lést í nótt eftir langvinn og alvarleg veikindi, 61 árs að aldri. Frá þessu er greint á ríkisfréttastofu Víetnam. Quang naut læknisaðstoðar um langt skeið, bæði í Víetnam sem og erlendis, en ekki tókst að finna lækningu við veikindum hans.

Quang gegndi embætti forseta landsins frá 2016 en hann á að baki áratugaferil í valdamiklu þjóðaröryggisráðuneyti landsins. Hann var þekktur harðlínumaður í stjórnmálum landsins og tók hart á öllu andófi gegn stjórnvöldum.

Sem þjóðhöfðingi gegndi Quang einu af fjórum æðstu embættum landsins en forsetaembættið er í raun frekar valdalítið og meira til skrauts og fólst einna helst í móttöku annarra þjóðarleiðtoga.

Quang þótti fölur á að líta og óstöðugur á fótum síðustu viku hans í embætti. Síðasta opinbera verk hans fyrir andlátið fólst í að taka á móti kínverskum stjórnmálamönnum í Hanoi fyrr í vikunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert