Biskup ákærður fyrir að nauðga nunnu

Nunnur á Indlandi með stuðningsmönnum sínum krefjast þess hér að …
Nunnur á Indlandi með stuðningsmönnum sínum krefjast þess hér að biskupinn Franco Mulakkal sé handtekinn. AFP

Indverskum biskupi, sem ákærður hefur verið fyrir að nauðga nunnu, var  í dag synjað um að vera látinn laus gegn tryggingu. Úrskurðaði dómari að hann verði áfram í varðhaldi lögreglu, en málið hefur vakið mikla reiði hjá klerkastéttinni á Indlandi.

Biskupinn Franco Mulakkal var handtekinn í Kerala-fylki á föstudag, eftir að Frans páfi leysti hann frá störfum vegna málsins sem hefur leitt til mikilla mótmæla meðal klerkastéttarinnar vegna aðgerðaleysis lögreglu.

Mulakkal, sem var yfir kaþólsku kirkjunni í Jalandhar í Punjab-fylki, er sakaður um að hafa nauðgað nunnunni 13 sinnum á árabilinu 2014-2016. Nunnan lagði fyrst fram ákæru gegn Mulakkal í júní, en lögregla hóf ekki rannsókn sína fyrr en í þessum mánuði er vaxandi reiði tók að gæta.

Lögregla hefur nú farið þess á leit við dómstóla að fá meiri tíma til að yfirheyra biskupinn, sem neitar ásökununum. Segir lögreglan að svo virðist sem Mulakkal hafi fangelsað konuna og nauðgað henni þrettán sinnum í sama herberginu, að því er Times of India greinir frá.

Mulakkal heldur því fram að ásökunin sé runnin undan rifjum andstæðinga kaþólsku kirkjunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert