Fannst á lífi tveimur dögum eftir slysið

Maður fannst á lífi í loftrými undir ferjunni, tveimur dögum …
Maður fannst á lífi í loftrými undir ferjunni, tveimur dögum eftir að henni hvolfdi. AFP

Manni var í dag bjargað úr ferju sem hvolfdi á Viktoríuvatninu í Tansaníu á fimmtudag. Hafði maðurinn lifað af í loftrými sem myndaðist í ferjunni MV Nyerere, þegar henni hvolfdi í nágrenni Ukara-eyju.

BBC segir manninn, Alphonce Charahani, hafa verið vélstjóra ferjunnar og að ástand hans sé alvarlegt. Hafði hann lokað sig inni í litlum klefa í ferjunni, en kafarar náðu að koma honum þaðan út.

Greint var frá því í dag að 207 manns hið minnsta hefðu látist er ferjunni hvolfdi. Ferjan var ofhlaðin og er ástæða þess að henni hvolfdi tal­in vera sú að farþeg­arn­ir færðu sig flest­ir yfir á aðra hlið ferj­unn­ar er hún nálgaðist höfn. Talilð er að um 400 manns hafi verið um borð, en ferjan hafði leyfi til að flytja 100 farþega.

Kafarar og björgunarlið héldu í dag áfram að leita að þeim sem kynnu að hafa lifað slysið af eftir að högghljóð heyrðust frá ferjunni.

Enn er verið að ná líkum úr vatninu og er búist við að fjöldi látinna eigi eftir að hækka enn frekar.

John Magufuli, forseti Tansaníu, sagði í dag að hann hefði fyrirskipað að forsvarsmenn ferjunnar yrðu handteknir samhliða því að hann lýsti yfir fjögurra daga þjóðarsorg.  Sagði hann í sjónvarpsávarpi að „vanræksla hefði kostað mörg líf“ og að það virtist augljóst að ferjan hefði verið ofhlaðinn. „Það er þegar byrjað að handtaka fólk,“ sagði Magafuli.

Stjórnarandstöðuflokkurinn Chadema hefur hins vegar gagnrýnt viðbrögð stjórnvalda. „Við höfum oft lýst yfir áhyggjum af lélegum aðstæðum á ferjunni, en stjórnvöld hafa horft fram hjá því,“ sagði varaformaður flokksins, John Mnyika, í samtali við AFP. „Við höfum ítrekað fordæmt þessa vanrækslu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert