Hætta að senda starfsfólk á kosningaskrifstofur

AFP

Facebook er hætt að senda starfsfólk sitt til starfa á kosningaskrifstofum stjórnmálamanna í kosningabaráttu, að fram kemur í tilkynningu frá fyrirtækinu.

Síðustu ár hefur samfélagsmiðillinn boðið upp á að aðstoð við að þróa kosningaherferð á internetinu, en umsjónarmaður stafrænna mála í kosningabaráttu Donald Trump til forseta Bandaríkjanna árið 2016, hefur sagt að Facebook aðstoðarmaður hans hafi hjálpað honum að vinna.

Facebook sagðist hafa boðið Hillary Clinton, mótframbjóðanda Trump, sömu aðstoð en hún þáði hana ekki. Greint hefur verið frá því að Trump eyddi 44 milljónum dollara í auglýsingar í gegnum Facebook en Clinton um 28 milljónum.

Facebook er annar stærsti auglýsingamiðlari í heimi á eftir Google, en bæði Google og Twitter bjóða einnig upp á svipaða aðstoð við undirbúning kosningaherferða. Hvorugt fyrirtækið hefur gefið út að það hyggist hætta slíkri aðstoð.

Facebook ætlar í staðinn að bjóða kosningaskrifstofum upp á ókeypis aðstoð í gegnum netið og útlokar ekki að halda fundi fyrir stjórnmálamenn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert