Enn rýmt í Raumsdal

Fjallið Mannen í Mæri og Raumsdal gliðnar nú um tíu …
Fjallið Mannen í Mæri og Raumsdal gliðnar nú um tíu sentimetra á dag og hefur íbúum á svæðinu enn verið gert að rýma heimili sín, í áttunda sinn síðan 2014. AFP

Gliðnun bergsprungna í hinum 1.294 metra háa Mannen í Raumsdal í norska fylkinu Mæri og Raumsdal mælist nú að jafnaði 10 til 11 sentimetrar á sólarhring en náði mest 16 sentimetrum í gærkvöldi, aðeins nokkrum klukkustundum eftir að blaðamannafundi Norsku vatna- og orku­mála­stofn­un­ar­inn­ar (n. Nor­ges vass­drags- og energidirek­torat, NVE) lauk þar á svæðinu og norska ríkisútvarpið NRK og fleiri fjölmiðlar greindu frá.

Íbúum bæjarins Rauma hefur því enn einu sinni verið gert að yfirgefa heimili sín vegna hættu á skriðu og er það áttunda rýmingin þar á svæðinu á aðeins fjórum árum.

Haustið 2014 rumskaði Mannen hressilega og voru 1.500 íbúar Rauma og nágrennis fluttir á brott í skyndi. Engin skriða féll þó í það skiptið en árið eftir urðu þar hræringar á ný og svo enn 2016.

„Vona að þetta fari að hrynja“

Hrynji Mannen allur, sem verstu hamfaraspárnar gera ráð fyrir, yrðu þær hamfarir gríðarmiklar. Mætti þá búast við grjóthruni 25 sinnum meira að rúmmáli en varð þegar stærsta skriða á sögutíma féll í Noregi aðfaranótt 13. september 1936 í Nordfjord, þegar rúmlega milljón rúmmetra grjótskriða féll niður í fjörðinn og kom af stað 74 metra hárri flóðbylgju sem kostaði 73 íbúa fjarðarins lífið. Líklegra er þó talið að hamrabelti sem gengur undir nafninu Veslemannen, eða Litli-Maðurinn, hrynji af Mannen og yrði það hrun minna að umfangi.

„Hreyfingarnar hafa ekki hægt eins mikið á sér og við gerðum ráð fyrir,“ segir Lars Harald Blikra, svæðisstjóri NVE í Mæri og Raumsdal, í samtali við NRK. „Við viljum ekki stefna fólki í hættu. Þessar hreyfingar hefðu getað orðið mun meiri hefði úrkoman, sem spáð var, gengið eftir,“ segir hann enn fremur.

„Þessi rýming verður í gildi um óákveðinn tíma og fólki er einnig bannað að fara um svæðið,“ segir Lars Olav Hustad, bæjarstjóri í Rauma, í samtali við dagblaðið Aftenposten

Íbúar Rauma eru orðnir vægast sagt þreyttir á sífelldum rýmingum en þetta er í annað skiptið á einni viku sem þeim er gert að forða sér og í áttunda skiptið síðan 2014 sem fyrr segir. „Nú vona ég að þetta fari að hrynja,“ segir Anny Solåt, sem búið hefur í Rauma í 60 ár, í samtali við dagblaðið VG þegar blaðamaður rekst á hana við verslun utan hættusvæðisins. „Ég bý sjálf við Brønnsletta, skammt frá Trollstigen,“ segist Solåt enn fremur frá, „þar hrynur grjót í sífellu niður en það er til allrar hamingju hinum megin við vatnið. En þetta geta orðið ár þar til hann hrynur, enginn veit hvenær það gerist,“ segir hún að síðustu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert