Nálar finnast í berjum á Nýja-Sjálandi

Ástralskur jarðarberjabóndi með uppskeruna. Uppskerutími jarðarberja er nú í hámarki ...
Ástralskur jarðarberjabóndi með uppskeruna. Uppskerutími jarðarberja er nú í hámarki í Ástralíu, en fáir vilja neyta berjanna vegna óttans sem saumnálafundurinn hefur valdið. AFP

Fundur saumnála í jarðarberjaöskjum, sem valdið hefur töluverðum ótta í Ástralíu, hefur nú breiðst yfir til Nýja-Sjálands. Tilkynnti matvöruverslanakeðjan Countdown í dag um að saumnálar hefðu fundist í jarðarberjaöskju í versluninni, en berin höfðu verið flutt inn frá Ástralíu.

Verslunin tók áströlsku jarðarberin úr sölu, en ber frá þessum birgja voru búin að vera í sölu í verslunum Countdown alla síðustu viku án þess að sambærileg atvik kæmu upp.

„Við lítum matvælaöryggi mjög alvarlegum augum,“ sagði í yfirlýsingu Countdown, sem kvað viðskiptavini geta skilað þeim jarðarberjum sem þeir hafi keypt veiti það þeim aukna hugarró.

Þá hvatti verslunin Ný-Sjálendinga til að skera áströlsk jarðarber áður en þeirra væri neytt.

AFP-fréttastofan segir engar tilkynningar hafa borist um veikindi eða meiðsl vegna saumnála í ávöxtum á Nýja-Sjálandi.

Rúmlega hundrað tilkynningar um saumnálar í ávöxtum hafa borist áströlskum yfirvöldum, frá því að fyrst var tilkynnt um slíkt atvik í Queensland-fylki fyrr í mánuðinum.

Telja yfirvöld að í flestum tilvellum sé um hrekk að ræða, eða grín á samfélagsmiðlum og hefur ástralska lögreglan yfirheyrt að minnsta kosti tvo ástralska unglinga fyrir að standa að slíku gabbi.

Verslanir Woolworths í Ástralíu, sem er móðurfyrirtæki Countdown, greip þannig til þess ráðs að hætta sölu á saumnálum í varúðarskyni á meðan lögregla leitar sökudólganna.

Þá samþykkti ástralska ríkisstjórnin í síðustu viku að hækka hámarksrefsingu fyrir að eiga við matvæli úr 10 árum í 15.

mbl.is
ÞVOTTAVÉL
TIL SÖLU GÓÐ AEG ÞVOTTAVÉL. NÝ KOL. VERÐ 45Þ.Þ. UPPL. Í 822-4850....
Íbúð til leigu á Seltjarnarnesi
Íbúð í einbýlishúsi með sérinngangi. Óskum eftir snyrtilegum, reyklausum og tr...
Húsaviðgerðir - husco.is
https://www.husco.is/...
Nudd Nudd Nudd
Relaxing Massage Downtown Reykjavik. S. 6947881, Alina...