Neitar að hafa veitt útlitsráðleggingar

Lagaprófessorinn Amy Chua er sögð hafa sagt nemendum sínum að …
Lagaprófessorinn Amy Chua er sögð hafa sagt nemendum sínum að Kavanaugh vildi ráða fallegar konur til starfa. Hún neitar ásökununum. Ljósmynd/Wikipedia.org

Amy Chua lagaprófessor við Yale-háskóla og metsöluhöfundur, sem var meðal stuðningsmanna dómaraefnisins Brett Kavanaugh, hafnar því alfarið að hún hafi sagt kvenkynslaganemum að sýna af sér „fyrirsætulegan kvenleika“ ef þær kæmust í viðtal hjá Kavanaugh.

„Allt sem sagt er um ráð mín til þeirra nemenda sem sækja um að komast að á skrifstofunni hjá Brett Kavanaugh er svívirðilegt og 100% rangt,“ sagði Chua í yfirlýsingu til lagadeildar Yale. Í raun séu slík ráð í fullkominni mótsögn við það sem hún hafi staðið fyrir sl. 15 ár.

Guardian og Huffington Post birtu fyrir helgi greinar þar sem greint var frá því að Chua, sem er höfundur bókarinnar Battle Hymn of the Tiger Mother sem fjallar um uppeldisaðferðir Kínverja, og eiginmaður hennar, prófessor Jed Rubenfeld, hafi sagt nemendum að Kavanaugh vildi að starfsfólk sitt hefði visst útlit. Einum nemanda fannst ráðgjöfin raunar svo fráhrindandi að hann ákvað að reyna ekki að komast að hjá dómaranum.

Chua hefur, að sögn Guardian, áhrif á val starfsmanna Kavanaugh vegna starfs síns hjá lagadeild Yale-háskóla. Hefur blaðið eftir einum fyrrverandi nemanda, sem kynntur var fyrir Kavanaugh í veislu hjá Chua, að hann vildi gjarnan að sá nemi sækti um starfið.

Kavanaugh, sem er dómaraefni Donald Trump Bandaríkjaforseta, hefur verið mikið í umræðunni undanfarið vegna tilefningar sinnar til Hæstaréttar og síðan ásakana Christ­ine Blasey Ford um að hann hafi beitt hana kyn­ferðis­legu of­beldi þegar þau voru á tán­ings­aldri.

Segir Chua í yfirlýsingu sinni að þvert á ásakanirnar, þá hafi hún sagt nemendum sínum að það væri „engin tilviljun“ hverja Kavanaugh réði til starfa og að hún hefði „alltaf“ sagt nemendum að undirbúa sig „brjálæðislega vel“ þar sem „innihaldið skipti mestu máli“.

Annar laganemi, sem Guardian ræddi við eftir að fréttin var birt og naut leiðbeiningar Chua, segir frétt blaðsins hins vegar í samræmi við sína reynslu. Hann hafi haft samband við Chua og lýst yfir áhuga á að vinna fyrir Kavanaugh. Chua hafi svarað því til að það væri „frábært“, en að dómarinn réði yfirleitt laglegar konur og sendi þær síðan áfram til hæstaréttardómarans John Roberts.

Vísaði hann þar með til hlutverks Kavanaughs sem svo kallaðs „fóðrara“, þ.e. dómara með starfsfólk sem oft ætti möguleika á að komast síðar í eftirsóttar stöður hjá dómurum Hæstaréttar Bandaríkjanna.

„Ég held ekki að þetta hafi verið neitt kynferðislegt,“ sagði neminn fyrrverandi sem ekki vildi láta nafn síns getið. „Kavanaugh vildi bara hafa fallegt starfsfólk.“

Fleiri fyrrverandi nemendur Chua hafa sagt það sama. Chua hafi ráðlagt þeim að Kavanaugh vildi fallegar konur. „Önnur stúlka [...] fékk þessi sömu ráð og Chua sagði henni að vera í hælum,“ hefur Guardian eftir einum nemenda sem sagði Chua að hún vildi vinna fyrir dómarann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert