Rouhani „ætti frekar að líta í spegil“

Yfirvöld í Íran segja leikbrúður Bandaríkjanna bera ábyrgð á árásinni.
Yfirvöld í Íran segja leikbrúður Bandaríkjanna bera ábyrgð á árásinni. AFP

Forseti Íran, Hassan Rouhani, hefur gagnrýnt Bandaríkjamenn í kjölfar skotárásar á hersýningu í írönsku borginni Ahvaz í gær, sem kostaði 25 manns lífið, þar á meðal fjögurra ára stúlku. Yfirvöld í Íran telja að ríki við Persaflóa, sem séu studd af Bandaríkjamönnum, beri ábyrgð á árásinni. Tveir hópar hafa þó lýst yfir ábyrgð; hryðjuverkasamtökin Ríki íslams og hópur stjórnarandstæðinga. Engar sannanir eru þó fyrir því að þessir hópar hafi komið nálægt árásinni. BBC greinir frá.

Bandaríkjamenn þvertaka fyrir þessar ásakanir íranskra yfirvalda og segjast fordæma allar hryðjuverkaárásir. Rouhani og Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, munu hittast á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í vikunni og Rouhani sagði í dag, áður en hann lagði af stað til New York, að svona glæpir yrðu ekki liðnir. „Það er alveg á hreinu hverjir frömdu þennan glæp og hverjum þeir eru tengdir.“

25 manns létust í árásinni í gær, þar á meðal …
25 manns létust í árásinni í gær, þar á meðal fjögurra ára stúlka. AFP

Rouhani sagði jafnframt að eitthvert ríki við Persaflóa hefði stutt árásarmennina með vopnum, fjármagni og pólitískum nauðsynjum. „Þessi litlu leikbrúðuríki á svæðinu eru studd af Bandaríkjunum sem veita þeim þann mátt sem þau þarfnast.“ Hann sagði Bandaríkin hafa sýnt umheiminum eineltiseðli sitt og einhliða stefnu.

Nikki Haley, fulltrúi Bandaríkjanna, segir hins vegar að Rouhani hafi kúgað þjóð sína í langan tíma og að hann þurfi að horfa sér nærri til að komast að því hverjir gerðu árásina.

„Bandaríkin fordæma allar hryðjuverkaárásir. Hann getur varpað ábyrgðinni á okkur ef hann vill. Hann ætti frekar að líta í spegil.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert