Samþykktu lög um búrkubann

Búrkuklædd kona á götu. Mynd úr safni.
Búrkuklædd kona á götu. Mynd úr safni. AFP

Kjósendur í svissnesku kantónunni St. Gallen samþykktu búrkubann með miklum meirihluta atkvæða í kosningu sem fram fór um málið í dag.

Tæplega 67% kjósenda samþykktu nýju lögin, sem banna fólki að klæðast á almannafæri fatnaði sem hylji andlitið. Er St. Gallen önnur svissneska kantónan til að taka upp slíkt bann, að sögn AFP-fréttastofunnar, en slíkt bann hefur verið í gildi í Ticino sl. tvö ár.

Í lagatextanum segir að bannið eigi við hvern þann „sem geri sig óþekkjanlegan með því að hylja andlit sitt á almannafæri, og stofni þannig í hættu almanna-, samfélags- eða trúarfriði“ og eigi viðkomandi yfir höfði sér sekt.

Lögin komust í gegnum þing kantónunnar með stuðningi mið- og hægriöfgaflokka, en málið var sett í íbúakosningu að kröfu Græningja og Ungra sósíalista.

Svissnesk stjórnvöld lögðust í fyrra gegn því að búrkubanni yrði komið á í landinu öllu, heldur yrði það þess í stað hlutverk hverrar kantónu fyrir sig að ákveða hvort slíkar aðgerðir væru nauðsynlegar.

Engu að síður er búist við að málið verði sett í þjóðaratkvæðagreiðslu á næsta ári, eftir að 100.000 undirskriftir söfnuðust með kröfu um að kosið yrði um búrkubannið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert