Undirbúa þingkosningar til bjargar Brexit

Theresa May forsætisráðherra Bretlands hefur hvatt þingmenn Íhaldsflokksins til að …
Theresa May forsætisráðherra Bretlands hefur hvatt þingmenn Íhaldsflokksins til að halda ró sinni. AFP

Aðstoðarmenn Theresu May, forsætisráðherra Bretlands, eru byrjaðir á laun að undirbúa þingkosningar í nóvember næstkomandi, að því er breska dagblaðið Times greinir frá í dag. Er þetta gert í því skyni að bjarga Brexit-viðræðunum og tryggja áframhaldandi veru May á valdastóli.

Leiðtogar Evrópusambandsins höfnuðu í síðustu viku tillögum May að samningi um útgöngu Breta úr ESB og sögðu þær ekki ganga upp. Times segir tvo hátt setta ráðgjafa May hafa brugðist við þessum fréttum með því að hefja undirbúning kosninga til að afla á ný stuðnings við Brexit-áætlunina.

Times vitnar í símtal tveggja ráðgjafa May. „Hvað ertu að gera í nóvember — af því að ég held að við þurfum að halda kosningar,“ á annar þeirra að hafa sagt við hinn.

Staða May þykir nú ótrygg og hefur Times eftir öðrum nánum samstarfsmanni May að að líklegt sé að hún tilkynni að hún muni segja af sér embætti næsta sumar og komi þannig í veg fyrir afsagnir fleiri ráðherra, eða að skipt verði um forsætisráðherra fyrr.

Samkvæmt heimildum Times felur ný Brexit-áætlun May í sér gerð viðskiptasamnings á svipuðum nótum og ESB og Kanada hafa gert með sér.

Stewart Jackson, fyrrverandi starfsmannastjóri David Davis sem var Brexit ráðherra í stjórn May þar til hann sagði af sér, varaði May í gærkvöldi við að hún hafi 10 daga frest til að bjarga forsætisráðherraembættinu. „Við veitum forsætisráðherranum tækifæri til að fá flokkinn í lið með sér og framkvæma það sem hún lofaði,“ sagði Davis. May verði að sýna fram á að hún geti nálgast Brexit á nýjan hátt, annars verði skipt um leiðtoga í Downingstræti fljótlega.

Sjálf hvatti May þingmenn Íhaldsflokksins í gærkvöldi til að halda ró sinni og hefur embætti forsætisráðherra alfarið hafnaði því að verið sé að undirbúa nýjar þingkosningar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert