Brotlenti vegna mistaka flugmanns

Töluverðar skemmdir urðu á þeim hluta verslunarmiðstöðvarinnar þar sem flugvélin …
Töluverðar skemmdir urðu á þeim hluta verslunarmiðstöðvarinnar þar sem flugvélin brotlenti. AFP

Mistök flugmanns ollu því að flugvél brotlenti á verslunarmiðstöð Melbourne í febrúar í fyrra með þeim afleiðingum að fimm manns létust. Þetta er niðurstaða áströlsku flugslysanefndarinnar, að því er BBC  greinir frá.

Flugvélin lenti á verslunarmiðstöð skömmu eftir flugtak frá Esssendon-flugvellinum með þeim afleiðingum að flugmaðurinn, Max Quartermain, og fjórir bandarískir farþegar sem hann var með um borð létust. Tveir til viðbótar urðu þá fyrir minni háttar meiðslum.

Segja flugmálayfirvöld að stillisveif hliðarstýris vélarinnar hafi verið ranglega stillt og það hafi valdið slysinu, en þetta sé nokkuð sem hefði átt að uppgötvast við forskoðun vélarinnar.

Flugmaðurinn, sem var á leið með farþegana til Tasmaníu í golf, var með áratuga reynslu. Hann sendi ítrekað frá sér neyðarboð áður en vélin brotlenti.  Segir flugslysanefndin að Quartermain hafi haft nokkur tækifæri til að uppgötva að stýrissveifin var ranglega stillt. Þá hafi of mikill þungi verið um borð í vélinni, en það hafi þó ekki átt þátt í slysinu.

Daniel Andrews, forsætisráðherra Viktoríu-fylkis, sagði slysið vera mannskæðasta flugslys í fylkinu sl. 30 ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert