Fá læknisaðstoð frá kínversku spítalaskipi

Komu kínverska spítalaskipsins var fagnað í La Guaira.
Komu kínverska spítalaskipsins var fagnað í La Guaira. AFP

Kínverskt spítalaskip hefur nú lagst að bryggju í Venesúela og verður þar næstu viku til að bjóða íbúum upp á ókeypis heilbrigðisþjónustu.

Vladimir Padrino López, varnarmálaráðherra Venesúela, fór um borð í skipið sem liggur við bryggju í borginni La Guaira, til að bjóða áhöfnina velkomna. Hefur BBC eftir López að gengið hafi verið frá komu skipsins Friðararkarinnar í heimsókn Nicolásar Maduro, forseta Venesúela, til Kína í síðustu viku.

Maduro samþykkti í heimsókn sinni að auka útflutning Venesúela á olíu til Kína, en Kína er einn stærsti lánardrottinn Venesúela.

Mikil efnahagskreppa hefur verið í Venesúela, sem hefur leitt til skorts á matvælum og lyfjum og hruns á almannaþjónustu.

Stjórnarandstaðan í Venesúela segir veru kínverska spítalaskipsins sýna hversu alvarlegur vandinn er.

Padrino López þakkaði kínverskum ráðamönnum fyrir vinarvottinn og sagði bæði ríki munu hagnast af. „Það er ánægja að fá skipið til Venesúela eftir ferð þess um rúmlega 40 lönd. Þetta er raunverulegur ríkiserindrekstur, með áþreifanlegu samstarfi,“ sagði hann.

Stjórnvöld í Venesúela hafa kennt Bandaríkjunum og alþjóðlegu viðskiptabanni um efnahagskreppuna.

Á föstudag hét Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, því að kynna á næstunni röð aðgerða  gegn stjórnvöldum í Venesúela.

Þá hefur Donald Trump Bandaríkjaforseti kallað Maduro einræðisherra og sakað stjórn hans um að hneppa fólk ólöglega í varðhald og standa fyrir barsmíðum og drápum á aðgerðasinnum stjórnarandstöðunnar.

Hundruð þúsunda Venesúelabúa hafa flúið land undanfarið ár, en efnahagskreppan hefur versnað mikið á þeim tíma. Segja Sameinuðu þjóðirnar 2,3 milljónir manna hafa yfirgefið Venesúela frá 2014.

Maduro var í heimsókn í Kína í síðustu viku til að biðla til kínverskra yfirvalda um aðstoð við að endurreisa efnahaginn. Segist forsetinn hafa undirritað 28 viðskipta- og fjárfestingasamninga við Kína.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert