Fannst á lífi eftir fimm daga

Ljósmynd/Wikipedia.org

74 ára gamall karlmaður fannst á lífi í dag, fimm dögum eftir að eldur kom upp í dvalarheimilinu sem hann bjó á í Washington, höfuðborg Bandaríkjanna.

Fram kemur í frétt AFP að maðurinn hafi verið fluttur á sjúkrahús og eru batahorfur hans taldar góðar. Maðurinn fannst þegar verið var að skoða skemmdir á húsinu.

Talið er að maðurinn hafi lokast inni í íbúð sinni þegar eldurinn kom upp í byggingunni í síðustu viku. Hann kallaði á hjálp þegar hann varð var við fólk í húsinu í dag.

Haft er eftir slökkviliðsstjóra Washington, Gregory Dean, að slökkviliðsmenn sem leituðu að fólki í byggingunni í kjölfar eldsins kunni að hafa gleymt að athuga íbúð mannsins.

Borgarstjóri Washington, Muriel Bowser, hefur fyrirskipað rannsókn á málinu og að leitað verði frekar í byggingunni til öryggis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert