„Mér líður eins og þræl“

Betrunarhúsið hét áður Medium Security Institution. Þeim lögfræðingum og fyrrverandi …
Betrunarhúsið hét áður Medium Security Institution. Þeim lögfræðingum og fyrrverandi vistmönnum sem krefjast þess að því sé lokað fer nú fjölgandi. Ljósmynd/Yfirvöld í St. Louis

Inez Bordeaux hafði verið blönk, heimilislaus og búið í athvarfi á þeim tíma sem hún komst í kynni við refsikerfið í St. Louis í Missouri-ríki í Bandaríkjunum. Eina skiptið sem hún upplifði þó virkilegt vonleysi var þó þegar hún var vistuð í hinu illræmda betrunarhúsi borgarinnar árið 2016.

„Ég var ekki viss um að ég lifði þetta af,“ rifjar Bordeaux upp í samtali við Guardian. Þrjár fyrstu næturnar dvaldi hún í einangrun eftir að starfsfólk kom að henni grátandi og taldi hana í kjölfarið í sjálfsvígshættu.

„Þeir tóku öll fötin mín og létu mig fá sjálfsvígsmussu. Ég mátti ekki hringja í neinn, tala við neinn eða lesa.“

Bordeaux, sem er hjúkrunarfræðingur að mennt og fjögurra barna móðir, var í vinnufangelsinu vegna tæknilegs brots á skilorði. Eins og 98% fanganna þar var hún saklaus samkvæmt lögum, en var vistuð í betrunarhúsinu fram að réttarhöldunum af því að hún hafði ekki efni á 25.000 dollara tryggingargreiðslu.

Handtökutilskipun vegna ofgreiðslu bóta

Bordeaux segir vinnufangelsið hafa verið fullt af daunillum úrgangi, sem rottur, svört mygla og stífluð klósett áttu sinn þátt í að valda. Henni var aldrei leyft að vera utandyra og var neitað um dömubindi og aðrar hreinlætisvörur.

„Ég segi alltaf að betrunarhúsið sé staður vonleysis. Þegar maður gengur þar fyrst inn þá finnur maður fyrir vonleysinu og angistinni.“

Saga Bordeaux af því hvernig hún endaði í betrunarhúsinu er ekki ólík sögu margra annarra. Bíll hennar var stöðvaður árið 2011, eins og algengt er með svarta í Missouri, og henni tilkynnt við það tækifæri að hún ætti yfir höfði sér handtökutilskipun vegna þjófnaðar.

„Ég hafði ekki hugmynd um hverju ég átti að hafa stolið,“ segir hún og fannst tilhugsunin móðgandi.

Saksóknari greindi henni síðar frá því að hún hefði fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Færi hún með málið fyrir dómstól ætti hún á hættu að vera dæmd til fangavistar og gæti í ofanálag misst hjúkrunarleyfið fyrir að lenda á sakaskrá. Hún féllst því á skilorðsbundinn dóm sem kvað á um fundi með skilorðsfulltrúa.

Vegna galla í kerfinu var henni hins vegar skipaður skilorðsfulltrúi sem var hættur störfum. Þegar bíll hennar var svo stöðvaður á ný árið 2016 var hún handtekin fyrir brot á skilorði, þar sem hún hafði aldrei fundað með skilorðsfulltrúa.

Bordeaux lenti í kjölfarið í betrunarhúsinu, en var heppin að sleppa út eftir mánuð. Þeir sem þangað koma dvelja nefnilega þar að meðaltali 190 daga. Hún tilheyrir nú sístækkandi hópi fyrrverandi vistmanna og lögfræðinga sem krefjast þess að því verði lokað.

90% vistmanna svartir

Fyrr í þessum mánuði var hleypt af stokkunum herferðinni #closetheworkhouse, sem útleggja má sem #lokumbetrunarhúsinu, samfara skýrslu þar sem aðstæðum er lýst sem „ógeðfelldum“ og framlengingu á réttarkerfi sem einkennist af kynþáttahatri.

90% þeirra sem dvelja í betrunarhúsinu í St. Louis eru svartir, þrátt fyrir að innan við helmingur íbúa borgarinnar sé svartur á hörund.

„Verðum að loka þessum stað núna“

Jimmie Edwards, yfirmaður öryggismála St. Louis-borgar, hefur yfirumsjón með rekstri betrunarhússins. Hann segir lýsingar á ástandinu þar vera ýktar.

Á ferð Guardian um betrunarhúsið vakti einn vistmanna athygli á því að hann hefði ekki fengið ný föt til skiptanna í hálfan mánuð, annar hrópaði á eftir blaðamönnum: „Við verðum að loka þessum stað núna. Mér líður eins og þræl hér.“

Lögreglustjórinn, Dale Glass, sem fylgdi blaðamönnum um, sagði vistmenn vera með leikaraskap. „Það er búið að vera mikið af skoðunarferðum undanfarið, þannig að þið afsakið að sumir vistmannanna vilji skemmta [ykkur],“ sagði hann.

Byggingin er gömul og loftræstingin léleg, en hvorki mygla né skordýr voru sýnileg í þeim hluta sem Guardian fékk að skoða.

Sima Atri, lögfræðingur hjá Arch City Defenders-lögmannsstofunni, sem hefur unnið fyrir fjölda vistmanna, segir þá hafa sagt sér að þeim hafi verið sagt að þvo sér fyrir gesti. „Allir sögðust þeir óttast refsiaðgerðir ef þeir töluðu við einhvern,“ sagði Atri.

Skuldafangelsi þeirra fátæku

Forsvarsmenn herferðarinnar #closetheworkhouse segja betrunarhúsið í raun vera skuldafangelsi, sem sé beitt gegn þeim sem myndu annars ganga lausir gegn tryggingu. Meðalupphæð tryggingarlausnargreiðslu í St. Louis er 25.000 dollarar, sem er á pari við meðalárstekjur íbúa í borginni, og upphæðin því umfram greiðslugetu margra.

Glass og Edwards segja vissulega of marga í varðhaldi og að þörf sé á endurbótum á tryggingarlausnarkerfinu. Þeir eru þess engu að síður fullvissir að betrunarhúsið hafi reynst mörgum vel. „Hvar annars staðar fá þeir þrjár máltíðir á dag, heilbrigðis- og tannlæknaþjónustu og upphitað hús yfir vetrarmánuðina?“ segir Tonya Harry, yfirmaður öryggismála.

Tilkynnt hefur verið um sex dauðsföll í betrunarhúsinu undanfarin fimm ár. Edwards segir „óréttlátt“ að kenna borgaryfirvöldum um. „Oftar en ekki hafa þau ekkert með betrunarhúsið, aðstæður þess eða starfsmenn að gera,“ sagði hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert