Önnur kona sakar Kavanaugh um áreitni

Brett Kavanaugh segir síðari ásökunina vera rógburð.
Brett Kavanaugh segir síðari ásökunina vera rógburð. AFP

Önnur kona hefur nú stigið fram og ásakað Brett Kavanaugh, dómaraefni Donald Trump Bandaríkjaforseta, um kynferðislega áreitni. Áður hafði sálfræðiprófessorinn Christine Blasey Ford sakað hann um kynferðislega misnotkun í unglingasamkvæmi á níunda áratug síðustu aldar. Greint var frá því um helgina að Ford muni bera vitni fyrir dómsmálanefnd bandarísku öldungadeildarinnar.

Konan sem nú hefur stigið fram heitir Deborah Ramirez og var bekkjarfélagi Kavanaugh í Yale. Segir hún í samtali við dagblaðið New Yorker að Kavanaugh hafi berað kynfæri sín fyrir sér í partíi þar sem áfengi var haft um hönd. Hann hafi otað þeim að henni og neytt hana til að snerta þau.

Kavanaugh hefur neitað báðum ásökunum og segir þá síðari vera „rógburð“.

Öldungadeildarþingmaðurinn Dianne Feinstein, sem á sæti í dómsmálanefndinni, kallaði eftir að yfirheyrslum nefndarinnar vegna dómaratilnefningar Kavanaugh yrði frestað eftir að Ramirez steig fram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert