Rússi segir handtöku „misskilning“

Rússinn segir málið misskilning.
Rússinn segir málið misskilning. Ljósmynd/Norden.org

Rússneskur ríkisborgari sem var handtekinn í Noregi grunaður um njósnir á norska Stórþinginu hafnar ásökunum og segir að málið sé byggt á „misskilningi“.

Ör­ygg­is­deild norsku lög­regl­unn­ar, PST, greindi frá því í gær að 51 árs Rússi hefði verið handtekinn grunaður um ólöglega háttsemi í þinginu.

Maðurinn, sem ekki hefur verið nafngreindur, var úrskurðaður í tveggja vikna gæsluvarðhald á laugardaginn en hann var handtekinn á föstudag á flugvellinum í Ósló.

„Hann segist ekki skilja hvers vegna hann er sakaður um þetta og trúir því að málið sé byggt á misskilningi,“ segir Hege Aakre, lögmaður mannsins, við AFP.

Talsmaður PST segir rannsókn málsins á frumstigi.

Teimuraz Ramishvili, sendiherra Rússlands í Noregi, gagnrýndi gæsluvarðhald mannsins á Facebook-síðu sendiráðsins í gær.

Í apríl var Norðmaður handtekinn í Rússlandi grunaður um njósnir. Maðurinn, Frode Berg, viðurkenndi að hafa verið sendiboði fyrir norska herinn. Lögmaður Berg sagði þó að hann hafi haft litla vitneskju um aðgerðina sem hann tók þátt í fyrir hönd norska hersins í Rússlandi.

Samkvæmt frétt AFP er talið að Norðmenn muni reyna að fá Berg heim í skiptum fyrir Rússann sem þeir eru með í haldi. Talsmaður PST vildi ekkert tjá sig um þær vangaveltur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert