Kavanaugh segist ekki vera að fara neitt

„Þetta er einfaldlega rógburður. Ég mun ekki láta hræða mig til þess að draga mig út úr ferlinu,“ sagði Brett Kavanaugh, sem Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur tilnefnt sem nýjan dómara við Hæstarétt Bandaríkjanna, í dag.

Tvær konur hafa sakað Kavanaugh um kynferðislegt ofbeldi þegar hann var við háskólanám sem ungur maður. Önnur konan, háskólaprófessorinn Christine Blasey Ford, hyggst bera vitni gegn honum fyrir þingnefnd á fimmtudaginn.

Kavanaugh segir tilganginn með þessum ásökunum pólitískan. Koma eigi í veg fyrir að hann verði skipaður hæstaréttardómari. Undir þetta hefur Trump tekið. „Ég er ekki að fara neitt,“ sagði Kavanaugh við fjölmiðla í Washington í dag.

Ford segir Kavanaugh og annan dreng hafa lokað hana inni í herbergi í teiti þegar þau hafi verið í miðskóla og reynt að afklæða hana árið 1982 þegar hann hafi verið 17 ára og hún 15 ára. Kavanaugh hafi þá verið mjög drukkinn.

AFP

Önnur kona, Deborah Ramirez, segir Kavanaugh hafa brotið gegn henni þegar þau voru við nám í Yale-háskóla í kringum 1983-1984. Hún segir Kavanaugh hafa berað sig fyrir framan hana í teiti og þrýst kynfærum sínum í andlit hennar.

Kavanaugh sagði í dag að hann vildi aðeins njóta sanngirni og fá tækifæri til þess að verja sig. Sagði hann feril sinn sýna að hann hefði lagt áherslu á jafnréttismál. Málið er erfitt fyrir repúblikana sem ráða báðum deildum þingsins.

Repúblikanar sjá fram á að ná meirihluta í Hæstarétti Bandaríkjanna með skipun Kavanaughs en óttast að málið muni skaða þá í þingkosningunum í nóvember. Demókratar vilja að skipun dómara verði frestað á meðan málið verði rannsakað.

Trump ítrekaði í dag að hann styddi Kavanaugh. Líklega hefðu fáir fengið jafnósanngjarna meðferð. Sagði hann ljóst að ásakanirnar væru pólitískar, það sæist á því hversu lengi hefði verið beðið með að koma fram með þær.

Brett Kavanaugh.
Brett Kavanaugh. AFP
Mótmælt í Washington í dag.
Mótmælt í Washington í dag. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina