Trump segir að Kim sé „frábær“

Donald Trump Bandaríkjaforseti.
Donald Trump Bandaríkjaforseti. AFP

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, lofaði Kim Jong-un, einræðisherra Norður-Kóreu, í dag og sagði að hann væri „frábær“ en forsetinn er staddur í New York vegna allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna. Sagði hann styttast í annan fund þeirra.

„Við ræddum auðvitað um Norður-Kóreu, við erum að ná stórkostlegum árangri,“ sagði Trump við fjölmiðla eftir að hafa fundað með Moon Jae-in, forseta Suður-Kóreu. Moon fundaði fyrir skömmu í annað sinn með norðurkóreska einræðisherranum.

„Kim formaður hefur verið virkilega opinn og frábær, satt að segja, og ég held að hann vilji sjá eitthvað gerast,“ sagði Trump enn fremur. Sagðist hann telja að það styttist í að hægt yrði að tilkynna um annan fund hans með Kim. Staðsetningin lægi ekki fyrir.

„En við hlökkum báðir mjög til þess að eiga hann.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert